139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka góða ræðu og áhugaverða greiningu og hef aðeins eina spurningu: Getur hv. þingmaður tekið undir með mér að það sé í raun ekki eðlilegt að ríkisstjórn, þ.e. meiri hluti á Alþingi, og minni hluti séu talin jafnábyrg fyrir stefnu stjórnvalda öðruvísi en að þar komi allir að borðinu og hlustað sé á tillögur allra, þ.e. að menn séu opnir fyrir tillögum? Þá leiðir af þeirri spurningu spurningin: Telur hv. þingmaður að fram að þessu hafi síðastliðin tvö ár verið hlustað nógu vel á tillögur sem koma ekki bara frá stjórnarandstöðu heldur líka, eins og hún nefndi í ræðu sinni, frá sumum þingmönnum stjórnarliðsins sem teljast kannski ekki jafnæskilegir og hinir? Með öðrum orðum: Hafa tillögur notið jafnræðis, sama hvaðan þær hafa komið? Og í öðru lagi: Hefur orðið einhver breyting á þessu?