139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:04]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég verð að viðurkenna að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum eftir að ég fór í pólitík með hversu erfitt það er að sitja sem þingmaður og hafa áhrif, sérstaklega þegar maður situr ekki í ríkisstjórn, en það virðist vera hefð fyrir því að maður þurfi að komast í ráðherrastól til þess að geta mótað ákveðna málaflokka. Það er að vísu ekki nóg að fara í ráðherrastól til að móta efnahagsstefnuna. Það virðist bara vera á könnu forsætisráðherra og flokksleiðtoga hins flokksins sem ekki er með forsætisráðherraembættið. En mér finnst það vera að breytast og upplifi í umræðunum um þessa þingsályktunartillögu að ráðherrar og stjórnarflokkar séu opnari fyrir því að hlusta á tillögur sem koma utan frá. Ég held líka að mótmælin fyrir utan Alþingishúsið þrýsti á að við breytum vinnubrögðum hér og ekki síst hvað varðar vinnu okkar að því að finna lausnir á mjög erfiðum málum. Ég fagna t.d. því að frumvarp sem ég lagði fram sem þingmaður, og þá er ég að vísa í frumvarpið um fyrningu krafna, sé núna komið fram sem frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra. Ég vonast til þess að fleiri frumvörp fari þá leið eða að jafnvel þurfi ekki einu sinni að láta ráðherra mæla fyrir frumvörpum til að þau verði samþykkt.