139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:08]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin um þjóðstjórn brennur á vörum margra, þar á meðal hv. formanns Framsóknarflokksins. Ég hef velt þessum möguleika svolítið fyrir mér í anda þess að maður tekur upp allar hugmyndir hvaðan sem þær koma og skoðar hvort maður geti verið sammála þeim. Mér finnst að mörgu leyti mikill kostur að við tökumst sem flest á við vandamálin. Við megum heldur ekki gleyma því að það er mjög mikill munur á þessum fjórum eða fimm flokkum þegar kemur m.a. að því hvernig eigi að leysa atvinnumálin eða draga úr atvinnuleysi. Ég skal bara viðurkenna að mér hryllir við þeirri tilhugsun að í þjóðstjórn verði í meiri hluta flokkar sem hafa barist mjög ötullega fyrir álverum. (Gripið fram í: Slæmu …) Já, eins og við öll vitum þarf oft í svona samstarfi og samvinnu að gefa eftir, en þetta yrði mjög erfiður biti fyrir marga í mínum flokki að kyngja. Og finnst okkur við hafa verið ansi tilleiðanleg og gengið mjög langt í að koma til móts við kröfur eða óskir samstarfsflokksins fram til þessa. (Gripið fram í.)