139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmanni fleygir fram í mælskulistinni og það er stundum unun að því að heyra orðræðu hans. Hann er fljótandi mælskur eins og svo margir Siglfirðingar enda er hann forustumaður á þeim stað.

Hv. þingmaður talaði um nauðsyn stórframkvæmda, ég er sammála honum um það. Það vill samt svo til að það eru að fara af stað framkvæmdir, menn eru að fara af stað með Búðarhálsvirkjun. Það mun skipta miklu máli í Suðurkjördæmi þó að vísu, að frádregnum Suðurnesjum, sé atvinnuástand þar tiltölulega gott. Það er undir 5% atvinnuleysi sem telst gott á Íslandi í dag.

Í næsta kjördæmi eru menn líka að ráðast í verulega stækkun á Straumsvíkurálverinu og það liggur fyrir að það er engin opinber fyrirstaða gegn því að menn geti ráðist í Helguvík núna (BJJ: Nú?) — það liggur einfaldlega fyrir. Af því að hv. þingmanni er umhugað um rekstur fyrirtækja, að vel sé að þeim búið, hefur verið samþykkt tiltölulega nýlega, að frumkvæði þessarar ríkisstjórnar, þingmál sem gerir það að verkum að sérstakar skattaívilnanir eru heimilaðar vegna nýfjárfestinga lítilla og meðalstórra fyrirtækja, vissulega fyrst og fremst utan Reykjavíkursvæðisins en með nokkrum frávikum væri hægt að koma þeim líka fyrir innan Reykjavíkur.

Tilefni fyrirspurnarinnar voru stýrivextir Seðlabankans. Frá því að við áttum síðast orðastað hér, ég og hv. þingmaður, um tillögur Framsóknarflokksins á sviði efnahagsmála, hafa stýrivextir hríðlækkað. Hugsanlega er það vegna hinnar góðu umræðu af hálfu Framsóknarflokksins, ég veit það ekki. Hitt er staðreynd að þeir hafa hríðlækkað og eru enn á niðurleið.

Varðandi gjaldeyrishöftin er ég því miður þeirrar skoðunar að um langa hríð verði hér einhvers konar höft í gangi og besta leið okkar til að losa um þau er að ganga í ónefnt samband og skipta um mynt. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er mér að öllu leyti sammála um það (Forseti hringir.) en á sínum yngri árum var hann það. En kannski er hann búinn að skipta um skoðun.