139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr undir lok ræðu sinnar hvort ég telji ekki rétt að breyta vinnubrögðum á þinginu. Ég tel að það sé rétt en ég tel líka að menn séu a.m.k. að reyna að snúa ofan af ráðherraræðinu sem hér ríkti lengi og allt of harkalega. Mér finnst sjálfum að ríkisstjórnin sé að reyna að vinna með stjórnarandstöðunni í mörgum málum eða a.m.k. einstökum málum.

Hér er tillaga sem ég hef tekið vel undir um að taka heildstætt til samvinnu á málunum. Ég ætla að spyrja hv. þingmann þegar hann kvartar undan tómlæti gagnvart tillögu sinni: Hér í þessum sal, undir umræðu um þessa ágætu tillögu, eru staddir fulltrúar tveggja flokka. Hér eru staddir þrír þingmenn Samfylkingarinnar og fimm þingmenn Framsóknarflokksins. (BJJ: Meira en helmingur.) Hvar er restin af stjórnarandstöðunni? Af hverju sýnir hún þetta tómlæti gagnvart tillögu Framsóknarflokksins?

Framsóknarflokkurinn er með tveimur flokkum í stjórnarandstöðu. Enginn þingmanna þeirra tveggja flokka sýnir flokknum þá virðingu að koma og ræða þessa tillögu. Stjórnarliðið hefur þó mannskap hér á vettvangi, ég ræddi málið sjálfur fyrr í dag, ég þurfti svo að víkja af vettvangi til fundar en ég kom rakleiðis til baka til að taka þátt í umræðunni.

Hv. þingmaður spyr hvers vegna ekki hafi verið farið í þau verkefni sem nefnd voru. Ástæðan er mjög einföld. Það var skortur á lánsfjármagni í Búðarhálsvirkjunina sem var forsenda breytinganna í Straumsvík. Það komst ekki hreyfing á það mál fyrr en ríki í fjarlægri álfu bauðst til þess að koma með gjaldmiðilsskiptasamninga þannig að í einu fallinu gætum við a.m.k. keypt það sem við þurfti að éta, túrbínur og annað slíkt, frá Kína. Nú er þó búið að fjármagna þetta.

Þar að auki liggur það fyrir að verið er að ræða 40 milljarða framkvæmdir í vegaframkvæmdum, þar af 6 milljarða sem kæmu frá ríkinu, í samvinnu við lífeyrissjóðina. Þetta eru verkefni sem ekki hefur tekist að ráðast í út af því hversu stökkt efnahagsástandið (Forseti hringir.) hefur verið.