139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var kannski ekki beint að mælast til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri sú sérfræðiaðstoð sem við þyrftum að leita eftir. Það hefur nefnilega komið í ljós að ríkisstjórninni er fyrirmunað að leita aðstoðar innan sinna eigin stjórnarflokka og hjá stjórnarandstöðunni. Hér situr margt frábært fólk á þingi og það er sama hvað gott kemur frá stjórnarandstöðunni, það er ekki notað eins og allar okkar góðu tillögur bera merki um. Ríkisstjórnin virðist vera á þeim stað að hún hlusti hvorki á góðar tillögur né fari eftir þeim. Það sem ég er að vísa í með erlenda sérfræðinga, ég hef t.d. talað um það ótal sinnum í þinginu hvort við ættum ekki að fá aðstoð frá þjóðþingum annarra Norðurlanda til að endurreisa löggjafarstarf á Íslandi. Hv. þingmaður reifaði áðan mál sem ég er sammála honum um varðandi forseta Alþingis, það er fráleitt að forseti Alþingis komi úr ríkisstjórnarflokkunum. Stjórnarandstaðan hefur ekki tækifæri til að koma málum á dagskrá. Eigum við ekki að vera ófeimin við að leita okkur almennilegrar aðstoðar og þá aðstoðar að utan?