139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:59]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég er hrifin af þeirri þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram og mælt fyrir. Ég vil nota þetta tækifæri og hrósa flutningsmönnum hennar — sem reyndar virðast allir vera horfnir úr salnum — fyrir að flytja hana og ég get tekið undir langflest í henni heils hugar. Þetta eru brýn mál og að mörgu leyti lífsnauðsynlegar aðgerðir sem þarf að ráðast í.

Ég er sérstaklega hrifin af heiti tillögunnar sem slær einmitt þann rétta tón sem við verðum öll að taka undir, en heitið er Tillaga til þingsályktunar um samvinnuráð um þjóðarsátt. Við verðum að ná þessari sátt og ef við ætlum okkur út úr því feni sem við erum í verðum við öll að standa saman og við verðum öll að leggjast á árarnar.

Hér hafa ýmsir nefnt þjóðstjórn. Ég er ekkert sérstaklega vongóð um að það takist að koma henni saman en það væri þó reynandi.

Það er tvennt í þessari tillögu sem mig langar aðeins að ræða hér og annað er liður 6, stytting fyrningarfrests krafna eftir gjaldþrot. Í tillögu sem Hreyfingin hefur lagt fram, um setningu neyðarlaga, setjum við þetta atriði inn og Ögmundur Jónasson hefur einnig lagt fram tillögu. Eftir að hafa skoðað þetta frá fleiri hliðum og fylgst með umræðunni í kjölfar þess að ráðherrann lagði fram tillögu sína er ég orðin mjög efins um að þetta sé nóg.

Á fyrstu níu mánuðum þessa árs voru 110 einstaklingar gerðir gjaldþrota. Hins vegar voru 4.195 sem misstu allt án þess að vera gerðir gjaldþrota. Stytting krafna bara hjá þessum 110 sem eru gerðir gjaldþrota held ég að sé ekki nóg ef miklu fleiri, margfalt fleiri, missa allt en kröfunum er haldið lifandi út yfir gröf og dauða. Þessu vildi ég koma að.

Hitt er liður 4 sem heitir „Atvinnuskapandi framkvæmdir“. Í greinargerðinni er talað um mannaflsfrekar framkvæmdir og þá fóru fordómar mínir kannski í gang því að oft þegar fjallað er um mannaflsfrekar framkvæmdir fer maður að hugsa um ál. Hér mætti kannski alveg eins fara að hugsa um kál, að í staðinn fyrir að byggja álver mundum við byggja kálver sem mundu skapa miklu fleiri störf og væru því einmitt mannaflsfrekar framkvæmdir.

Í greinargerðinni kemur ekkert fram um hvers konar framkvæmdir þetta eru, bara að þær eigi að fara í gang og séu mannaflsfrekar. Ég hefði mikinn áhuga á að heyra aðeins í flutningsmönnum um hvað þeir eiga nákvæmlega við eða hvort það eigi bara að vera opið og það sé samvinnuráðsins að finna út úr því, sem væri ekkert verra.

Í kjölfar kreppunnar hafa augu manna víða um heim verið að opnast fyrir gildi og verðmæti litlu fyrirtækjanna og því sem við köllum kannski örfyrirtæki. Það hefur sýnt sig að arðurinn sem verður af starfsemi slíkra fyrirtækja verður frekar eftir í samfélaginu. Oft eru þetta fjölskyldufyrirtæki, ef þau ganga vel deilist arðurinn á þá sem reka fyrirtækið og þá sem vinna hjá því. Arðurinn verður eftir í samfélaginu og það myndast margföldunaráhrif. Arðurinn af stórfyrirtækjum er oft fluttur úr landi. Oft eru þetta erlend fyrirtæki, starfsmennirnir eru verkamenn, eru jafnvel á lágmarkslaunum, þótt það sé ekki algilt, og arðurinn sem verður af fyrirtækinu flyst úr landi og jafnvel í einhver skattaskjól.

Mér fyndist forvitnilegt að vita nánar við hvað framsóknarmenn eiga en fagna þessari tillögu og styð hana að sjálfsögðu.