139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir hversu vel hann tók í tillögu okkar og sérstaklega vil ég nefna að ég er ánægður með að hv. þingmaður gerði sér grein fyrir því sem er einmitt tilgangurinn með þessu. Þetta er ekki lýsing í smáatriðum á því hvernig eigi að gera hlutina vegna þess að þá væri einmitt hægt að fá alla að borðinu og menn gætu haft ólíka skoðun á því og fundið í sameiningu út úr því hvernig ætti að gera hlutina.

Við brenndum okkur á því á sínum tíma þegar við komum með tillögur um almenna leiðréttingu lána að umræðan snerist öll um aðferðina, smáatriðunum í útfærslunni. Þess vegna segjum við núna: Getum við ekki öll orðið sammála um að slík aðgerð sé réttlát og nauðsynleg? Þá komum við að vandamálinu. Ég er nefnilega farinn að hafa áhyggjur af því að það séu alls ekki allir þeirrar skoðunar að slík aðgerð sé réttlát og nauðsynleg. Ég fylltist aftur bjartsýni eftir mótmælin um daginn þegar forsætisráðherra brást við þeim með því að boða til fundar um aðgerðir í þágu heimilanna, samráðsfundar, og forsætisráðherra gaf mjög sterkt í skyn að það ætti að snúast um almenna leiðréttingu lána.

Hvað gerist svo? Svo kemur hæstv. forsætisráðherra fram og segir að bankarnir hafi verið á móti því og þess vegna sé ekkert hægt að gera. Þá erum við komin að vandanum við samráðið. Telur hv. þingmaður að þessi vandi sé yfirstíganlegur á meðan þetta ríkisstjórnarform er, þ.e. ef meiri hluti þeirra sem taka þátt í þessu samráði er á því að ráðast eigi til að mynda í almennar aðgerðir í skuldamálum að þá muni ríkisstjórnin sætta sig við það og lúffa og segja: Jæja, þetta var ekki okkar nálgun en það er meiri hluti fyrir þessu og við skulum vinna með ykkur að því? Hefur hv. þingmaður með öðrum orðum trú á því að það verði alvörusamráð?