139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[18:50]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem er nýr í þessu embætti, á helstu ágreiningsatriðunum sem voru í viðskiptanefnd þegar þetta frumvarp var síðast til umfjöllunar þar. Ágreiningsefnin snúast fyrst og fremst um b-lið 2. gr. þar sem verið er að veita Samkeppniseftirlitinu heimild til að fyrirskipa markaðsráðandi fyrirtæki að skipta upp starfseminni. Á fundi viðskiptanefndar kom fram þrenns konar gagnrýni á þessa grein í frumvarpinu. Í fyrsta lagi að það væri ansi matskennt hvernig Samkeppniseftirlitið ætti að meta aðstæður og háttsemi sem kæmi í veg fyrir og raskaði samkeppni.

Önnur gagnrýni er sú að þessi grein skuli sett inn í lögin aftur. Hún var tekin út 2005, eftir að hafa verið innleidd 1993, til að geta fyrirskipað einu fyrirtæki að skipta upp starfsemi sinni. Hér er verið að vísa til Haga fyrst og fremst og við eigum ekki að vera að setja lög eða gera lagabreytingar sem beinast að einu fyrirtæki.

Þriðji gagnrýnispunkturinn sem ég hef m.a. haldið á lofti, og við Vinstri græn, er að það er ákveðin hætta á því að Samkeppniseftirlitið fyrirskipi fyrirtækjum á fákeppnismörkuðum, eins og er mjög algengt úti á landi, að skipta upp starfsemi sinni og þá er ég að vísa til MS. Þess vegna viljum við Vinstri græn koma því inn að Samkeppniseftirlitið, við mat sitt á því hvort fyrirskipa eigi uppskiptingu, taki tillit til almannahagsmuna.