139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[18:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar ábendingar og ég hlakka til að starfa með nefndinni í verkefni hennar við að reyna að tryggja greiðan framgang málsins. Ég held að miklir almannahagsmunir séu af því að heimild sú sem hér um ræðir komi í lög. Hvernig hún er nákvæmlega útfærð er svo annað mál. Við viljum vekja sérstaka athygli á því að jafnt í framsöguræðu sem og í greinargerð er vikið sérstaklega að því núna í skýringum við greinina að taka skuli tillit til almannahagsmuna og það skuli vera grundvallarmat sem þar liggi að baki í ljósi athugasemda sem fram hafa komið frá hv. þingmanni og fulltrúum Vinstri grænna í nefndinni. Í því ljósi og í því ljósi auðvitað að afurðastöðvar í mjólkuriðnaði eru undanþegnar samkeppnislögum samkvæmt sérákvæði í búvörulögum tel ég ekki sérstaka ástæðu til að hafa áhyggjur gagnvart því atriði en ítreka að viðmiðin þarna eru hlutir sem við verðum sjálfsagt að fara yfir vandlega með nefndinni í meðförum hennar.