139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 80/2008 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

133. mál
[19:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Forseti hefur gert grein fyrir löngu heiti þessarar þingsályktunartillögu. Þar er gert ráð fyrir ákveðnum breytingum í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þarna er um að ræða reglugerð sem á að tilgreina skilmála sem góðar reikningsskilavenjur þriðju ríkja þurfa að uppfylla til að hægt sé að vega þær að jöfnu við alþjóðlega reikningsskilastaðla sem Evrópusambandið samþykkir. Það er ráðgert að þessi tilskipun verði innleidd með breytingum á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, og ýmsum lögum varðandi endurskoðendur og skoðunarmenn.

Frumvarp um þetta efni hefur þegar verið lagt fram á tveimur undangengnum löggjafarþingum, því 136. og 138., en hlaut ekki afgreiðslu. Hins vegar mun hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leggja frumvarpið fram á ný á þessu löggjafarþingi.

Þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og því var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Þess vegna er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo megi aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, hæstv. forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.