139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Á kjördæmadögum í síðustu viku var rætt mikið um málefni sem brenna á fólki, m.a. í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi. Á fundi sem við áttum í Neskaupstað kom fram mikil undrun bæjarstjórnarinnar þar um að ekki skuli vera búið að bjóða út ofanflóðavarnir sem ríkisstjórnin lofaði að gert yrði í fyrra. Ég vil minna hv. formann fjárlaganefndar á loforðið og ég veit að hún veit að í ofanflóðasjóði eru á áttunda milljarð króna. Á hverju ári fara inn í þennan sjóð 500–600 millj. kr. og annað eins er í fjármagnstekjur hjá sjóðnum.

Það er ekki bara í Neskaupstað sem öryggi íbúa er ógnað með þessum hætti. Við fengum þær upplýsingar á Siglufirði að framkvæmdir væru tilbúnar þar líka, það þurfti að rýma hús þar, og eins hafa komið upplýsingar að vestan, frá Vestfjörðum, Ísafjarðarbæ, um að þar séu verk líka tilbúin til útboðs.

Á sama tíma heyrum við mikið ákall um að einhverjar verklegar framkvæmdir fari að fara af stað vítt og breitt um landið. Hér er um að ræða framkvæmdir sem á næstu 3–4 árum gætu skapað nokkur hundruð störf og veitir ekki af slíku til að minnka atvinnuleysið og síðast en ekki síst til að efla atvinnulífið í landinu. Ég spyr því hv. formann fjárlaganefndar hvort hún vilji beita sér fyrir því að auka framlög og framkvæmdir á þessu sviði. Nú er fjárlagafrumvarpið komið í hendur þingsins og við eigum að móta á næsta ári og til næstu ára hvernig við ætlum að haga framkvæmd fjárlaga, hvernig við ætlum að verja fjármunum sem eru til staðar í ofanflóðasjóði og munu ef eitthvað er aukast enn frekar á næstu árum. Ég spyr enn og aftur hv. formann fjárlaganefndar hvort hún hyggist (Forseti hringir.) ganga í lið með okkur í þeim efnum að koma af stað verklegum framkvæmdum og hraða gerð snjóflóðamannvirkja í landinu.