139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að í áætlunum ofanflóðasjóðs sé reiknað með framkvæmdum fyrir 1.190 millj. kr. í ár og 660 millj. kr. á árinu 2011. Stærstu framkvæmdirnar eru við snjóflóðagarð í Bolungarvík og upptökustoðvirki í Neskaupstað.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson spyr hvort ég sé tilbúin til að beita mér fyrir því að frekari fjármunir úr sjóðnum verði veittir á árinu 2011 og nefnir sérstaka staði þar sem útboð eru tilbúin o.s.frv. Ég get svarað þessu játandi. Þetta er eitt af þeim atriðum sem eru í sérstakri skoðun og vinna er hafin við mat á því hvort rétt sé að veita aukna fjármuni úr sjóðnum. Eins og ég segi er það eitt af þeim málum sem fær sérstaka skoðun fyrir síðari umræður fjárlagafrumvarpsins.