139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:12]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get ekki stillt mig um að bregðast við ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams og fara aðeins yfir þær fullyrðingar sem komu fram í máli hans sem mér finnst að mörgu lagi innstæðulitlar. Þar er t.d. fullyrðing um að það sé algjört glapræði að fylgja ekki efnahagsáætlun AGS. Sú fullyrðing tekur ekki mið af þeim aðstæðum sem við búum við í dag. Samdrátturinn er meiri, ekki bara erlendis heldur líka hér á landi. Einkaneysla hefur dregist saman um 25% sem er meira en bæði AGS og Seðlabankinn gerðu ráð fyrir og að mínu mati er það glapræði að sýna ekki sveigjanleika, endurskoða efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og breyta þar með þeim ramma sem sjóðurinn setti fyrir tveimur árum ef við ætlum að brjótast út úr þessum vítahring minnkandi eftirspurnar og aukins atvinnuleysis sem við erum komin í.

Hv. þingmaður fullyrðir líka að við höfum ekki getað sett á gjaldeyrishöft nema af því að við vorum í samstarfi við AGS. Gjaldeyrishöft eru brot á EES-samningnum, hvort sem við erum í samstarfi við AGS eða stöndum á eigin fótum.

Síðan fullyrðir hv. þingmaður að samstarfið við AGS leiki lykilhlutverk við það að greiða fyrir erlendri fjárfestingu. AGS er lánveitandi til vandræðalanda, frú forseti, og það að AGS er hér inni sendir þau skilaboð til fjárfesta að við getum ekki staðið á eigin fótum og þurfum utanaðkomandi aðstoð við að reisa þetta hagkerfi við. Ég geri ráð fyrir því að fjárfestar bíði þar til AGS er farið með það að koma hingað og fjárfesta.