139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt um vanda heimilanna undanfarið og menn hafa verið að smíða lausnir við þeim vanda. Það þykir nú alltaf gott þegar menn leggja í ferðalag eða sjóferð að vita hvernig landslagið er fram undan og það er ekki vitað í dag. Ég ætla að skora á hv. þingheim á uppbyggilegan hátt að menn afli sér upplýsinga um landslagið fram undan, hver staða heimilanna sé raunverulega. Þær upplýsingar eru allar til. Upplýsingar um stöðu leigjenda eru til hjá sveitarfélögunum, upplýsingar um stöðu skuldara eru til hjá lífeyrissjóðum og bönkum og skattinum og úti um allt. Upplýsingarnar eru allar til og það er hægt að fá þær fram með mjög stuttum fyrirvara á tölvuöld. Þess vegna skora ég á hv. þingheim allan að taka höndum saman og smíða í næstu viku frumvarp sem verði að lögum í lok vikunnar sem er þess eðlis að slík könnun geti farið fram, það sé unnið í samráði við Persónuvernd og þá aðila sem gæta bankaleyndar, sem er Fjármálaeftirlitið. Það verði sett í gang og miðað við 1. nóvember og niðurstaðan liggi svo fyrir í byrjun desember. Þá getum við samið lög og frumvörp sem laga stöðu heimilanna eins og hún er raunverulega, staða leigjenda, staða þeirra sem skulda, staða þeirra sem misst hafa atvinnuna o.s.frv. Það getur vel verið að hækka þurfi atvinnuleysisbætur, húsaleigubætur eða eitthvað slíkt, þá gerum við það. Mér finnst mjög brýnt að við kortleggjum vandamálið þannig að menn séu ekki alltaf að spekúlera. Það hafa orðið miklar breytingar á síðustu mánuðum með dómum Hæstaréttar, til batnaðar fyrir mörg heimili. Ég vil að við kortleggjum vandann hratt og vel og vinnum öll saman að því í næstu viku að samþykkja svona lög. Við erum nefnilega löggjafinn í landinu. (BirgJ: Heyr, heyr.)