139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram hefur komið undir þessum dagskrárlið, um störf þingsins, að auðvitað er horft til þingsins og vinnubragða á þinginu og samskipta á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. En er það svo, eins og sumir halda fram, að vandi þjóðfélagsins sé tilkominn vegna átaka á þinginu á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, vegna þess aðhalds sem stjórnarandstaðan veitir ríkisstjórninni? Er það stóri vandi þjóðarinnar í dag? Eða er vandinn sá að ríkisstjórnin hefur ekki getað staðið við þau loforð sem hún gaf kjósendum fyrir síðustu kosningar? Er vandinn sá að ríkisstjórnin hefur ekki verið samhent, ekki gengið markvisst til aðgerða, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson tók fram í ræðu sinni að væri svo mikilvægt, og hefur ekki skilað árangri? Ég er þeirrar skoðunar að það sé þetta síðarnefnda, þ.e. árangursleysi ríkisstjórnarinnar, sem er vandamálið. Vandinn er ekki sá að stjórnarandstaðan sé óbilgjörn hér á þinginu, það er ekki stóra vandamálið, en það er auðvelt að grípa til slíkra skýringa þegar menn eru komnir í vanda. Þær kunna að hljóma sennilega við þær aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu í dag.

Það reyndist okkur ekkert sérstaklega vel þegar við gengum til samstarfs við ríkisstjórnina um að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið, skýrslan var ekki komin út áður en stjórnarliðar voru farnir að hlaupast á brott frá því samkomulagi sem þar hafði náðst svo breið samstaða um. Það reyndist okkur heldur ekki vel að eiga samstarf við stjórnarflokkana í Icesave-málinu um það að verja íslenska hagsmuni. Þar hefðum við nú a.m.k. átt að fá kjörið tækifæri til að snúa bökum saman vegna þess að kröfunum var haldið á lofti gagnvart Íslendingum af erlendum aðilum. En þar brást stjórnin í samstöðunni með þjóðinni og stjórnarandstöðunni var kennt um allt saman.

Við höfum ekkert sérstaklega góða reynslu af því af ríkisstjórnarinnar hálfu þegar til samstarfs hefur verið (Forseti hringir.) gripið. En látum ekki blekkjast af þeim skilaboðum sem er verið að reyna að færa þjóðinni að vandi hennar sé vegna stjórnarandstöðunnar, vandinn er vegna úrræða- og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar. (Utanrrh.: Það er ekki rétt.)