139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[11:41]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að greitt skuli hafa verið fyrir því að þetta mál kæmist á dagskrá. Það er greinilega samhljómur um það hér í þingsalnum að málið varði brýnt umræðuefni. Mig langar til að byrja á því að segja að hvarvetna þar sem maður kemur í þessu þjóðfélagi og spyr fólk um trú þess á framtíðina kemur mjög skýrt fram að fólk hefur þá sannfæringu í brjósti að við á Íslandi getum búið íbúunum bestu lífskjör í heimi, a.m.k. sambærileg við það sem best gerist í heiminum. Þessi trú er alveg ótrúlega sterk. Það eru allir sammála um það að við erum að ganga í gegnum tímabundna erfiðleika, en langflestir þeirra sem maður spyr eru sannfærðir um að við Íslendingar getum búið fólkinu í þessu landi lífskjör sem jafnast á við það sem best gerist í heiminum.

Það er mjög athyglisvert að kalla eftir skýringum á því hvers vegna fólk hefur þessa trú. Hún byggir í fyrsta lagi á því að við höfum verið gæfusöm í fortíðinni þegar við höfum tekið ákvarðanir um að nýta auðlindirnar. Það hefur gefið okkur forskot. Auðvitað höfum við náttúrulegt forskot í gegnum þær auðlindir sem við höfum úr að spila, bæði í hafinu og á landi, í iðrum jarðar. Það er líka vegna þess að við höfum fjárfest í innviðum þessa samfélags. Við höfum byggt hér upp velferðarkerfi og samkeppnishæft umhverfi fyrir atvinnustarfsemina.

Við höfum líka fjárfest í menntakerfinu. Við höfum byggt hér upp öflugt heilbrigðiskerfi með þéttriðnu öryggisneti með því sem við erum að gera hjá almannatryggingum. Við höfum allar forsendur þess að halda áfram á sömu braut og við höfum gert undanfarna áratugi og endurheimta lífskjörin tiltölulega hratt.

Þessum tillögum er teflt fram á þinginu vegna þess að við teljum að ríkisstjórnin sé á rangri leið. Við leggjum þetta hérna til og við tökum til umfjöllunar þrjá meginflokka aðgerða sem verður að grípa til núna svo við snúum af þeirri röngu leið sem stjórnvöld hafa verið á og komumst aftur á sporið. Það fyrsta sem við tökum til umfjöllunar í þessari þingsályktunartillögu er aðgerðir fyrir heimilin.

Mig langar til að byrja á því að segja áður en ég fer inn í einstakar aðgerðir fyrir heimilin að hér er ekki að finna tillögu um flatan niðurskurð skulda. Menn hafa kallað eftir því og ríkisstjórnin hefur ekki enn tekið af skarið um það hvort í slíkar aðgerðir verður farið. Okkar niðurstaða er sú að það yrði gríðarlega kostnaðarsöm aðgerð sem mundi ekki nýtast þeim sem eru í brýnustu þörfinni. Þess vegna er mikilvægt að menn fari að komast að niðurstöðu um þetta atriði og hætti að senda misvísandi skilaboð út í samfélagið.

Tillögur okkar snúa annars vegar að þeim sem eru í allra verstu stöðunni. Ef við tökum það til umfjöllunar fyrst er t.d. gengið út frá því að þeir sem missa húsnæði sitt eigi kost á að leigja það aftur á sanngjörnum kjörum. Ég tek það fram að þessu úrræði er til að dreifa í kerfinu í dag, en leigukjörin sem hafa staðið til boða eru ósanngjörn, algjörlega óraunhæf. Sá sem ekki getur staðið undir, segjum 100 þús. kr. afborgun af lánum og tapar húsnæðinu á þeirri forsendu getur ekki greitt 200 þús. kr. í leigu. (Gripið fram í: Þetta er …) Þannig hefur það verið í framkvæmd.

Við erum líka með tillögur hér sem snúa að þeim sem hafa tapað atvinnu sinni, að þeir fái heimild til að frysta greiðslur vegna fasteignalána í sex mánuði til að fá lágmarksskjól, til þess að þá safnist t.d. ekki upp dráttarvextir vegna gjaldfellinga.

Það úrræði sem mun skila mestum árangri fyrir þá sem hafa treyst á úrræðin sem þó er búið að lögfesta er það sem snýr að greiðsluaðlöguninni. Þar bendum við á hversu þröng neysluviðmiðin eru. Það hefur sýnt sig m.a. í því að sumir þeirra sem hafa farið í greiðsluaðlögun lenda aftur í vanskilum og því hversu mikil tregða hefur verið hjá fólki til að leita greiðsluaðlögunar. Við teljum að neysluviðmiðin séu þar allt of lág og endurspegli ekki þann vilja þingsins að nýta þetta úrræði til að koma til móts við forsendubrest.

Ef menn eru þeirrar skoðunar að hér hafi orðið ákveðinn forsendubrestur og að af þeirri ástæðu sé tilefni til að koma á úrræði á borð við greiðsluaðlögunina er ekki hægt að þröngva öllum í gegnum það úrræði á forsendum neysluviðmiða sem eru í engum takti við það sem fólk hefur lifað eftir undanfarin ár.

Að auki teljum við hægt að ryðja úr vegi öðrum hindrunum sem er að finna í löggjöfinni og reglunum um þessi mál sem leiða til þess að færri verða samþykktir í greiðsluaðlögun en ella. Ég tek þar sem dæmi viðmiðin sem snúa að ábyrgri fjármálahegðun í aðdraganda hrunsins. Þetta er afar matskennt atriði og eftir því sem menn ætla að fara að túlka það þrengra komast færri að.

Þeir sem hafa verið að mæta til umboðsmanns skuldara og brjóta þar stóla og borð, ryðja niður skilrúmum, hafa m.a. vísað til þessa þegar fólk er spurt hvað hafi vakað fyrir því á árinu 2006 eða 2007 í aðdraganda hrunsins þegar það greip til þessarar eða hinnar ráðstöfunarinnar. Ætli menn að elta ólar við þetta endalaust munu menn einungis valda þeim vonbrigðum sem þeir þykjast vera að koma til hjálpar.

Hér vil ég síðan koma inn á það sem talið er upp í 3. tölulið vegna aðgerða fyrir heimilin, það að fólk eigi kost á því að slá niður greiðslubyrði vegna fasteignalána sinna um 50% í þrjú ár gegn lengingu lánanna. Í umræðu um aðgerðir okkar vegna skuldavanda heimilanna er gjarnan bent á þetta úrræði og sagt: Ja, það eina sem sjálfstæðismenn vilja gera er að lengja í lánunum og fresta því að taka á vandamálunum. Þetta er rangt. Þetta er alrangt vegna þess að greiðsluaðlögunin er auðvitað stóra úrræðið fyrir þá sem sækjast eftir því að fá felldar niður skuldir. Það er úrræðið sem við á þinginu sammæltumst um í fyrra. Þó að skilyrðin hafi verið allt of þröng á þeim tíma og allt of seint brugðist við af hálfu stjórnvalda til að rýmka þau er það meginúrræðið sem fólk á að nýta sér til þess að fá skuldir felldar niður.

Við hliðina á þeim stóra hópi sem þarf að fá skuldir felldar niður er stóra millistéttin í þessu landi sem er að berjast við að láta enda ná saman, rétt svo getur það í dag en sér ekki fram á vöxt kaupmáttar á næstu árum og er að sligast undan þessum nýju byrðum. Fyrir allan þennan stóra hóp teljum við skynsamlegt að leiða inn í löggjöfina úrræði sem gerir honum kleift að slá á greiðslubyrði sína um allt að helming þannig að hann fái tímabundið svigrúm til að losa sig við yfirdráttarheimildina. Þannig getur hann losað sig við aðrar dýrari skuldir og komið betra skipulagi á fjármál sín án þess að gera samning um að nýta allar ráðstöfunartekjur sínar í þágu lánardrottna eftir greiðsluaðlögunarúrræðinu og án þess að fara í einhvers konar nauðasamninga, heldur gerir einfaldlega þessi almenna opna leið fólki kleift að fá skjól í þennan tíma. Höfum það hugfast að þessi þrjú ár sem við horfum til eru árin þar sem við trúum því að við komum atvinnustarfseminni aftur í gang þannig að fólk endurheimti möguleikann til að taka að sér yfirvinnu, þannig að fólk fái aftur fullt starfshlutfall, það sem er komið núna niður í segjum 80–90% starfshlutfall, og að mörg heimili endurheimti aftur báðar fyrirvinnurnar í þeim tilvikum þar sem önnur hefur tapað starfinu. Það er í gegnum þennan tíma sem við erum sérstaklega að horfa til að hjálpa fólki.

Hér er ekki tími til þess að fara nákvæmlega ofan í öll önnur úrræði. Ég bara vek athygli á því að í 7. töluliðnum erum við að tala um að styrkja vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögur í fjárlagafrumvarpinu um að fara í hina áttina, að veikja vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið. Það eru kolrangar áherslur vegna þess að ef einhvers staðar er með markvissum hætti hægt að ná til þeirra sem eru í mestum greiðsluvanda við þær aðstæður sem núna eru uppi er það í gegnum þessi kerfi. Það er einmitt þar og miklu frekar en í gegnum flatar niðurfærslur.

Ég get minnt hér á að við teljum að stimpilgjöldin eigi að fella niður í þeim tilgangi sem fram kemur í tillögunni. Ég ætla að leyfa mér að taka hérna örstutta stund í að minnast á að það verður auðvitað opnað fyrir það að fólk geti fengið afskrifaðar skuldir á sig án þess að hafa farið í greiðsluaðlögun eða í gegnum gjaldþrot eða nauðasamninga án þess að það leiði til skattlagningar. Ef fyrir liggur að fólk hefur afhent allar eigur sínar, hvers vegna ættum við á löggjafarþinginu að vilja skattleggja sérstaklega þá sem eru tilbúnir utan nauðasamninga, gjaldþrots eða greiðsluaðlögunar að afhenda allar eigur sínar? Af hverju ættum við að vilja skattleggja niðurfellingu skulda á það fólk? Við eigum ekki að vera með slíkar reglur. Því þarf að breyta.

Ég verð að nýta tímann vel til að komast að kaflanum um atvinnulífið. Það er algjört grundvallaratriði og stærsta hagsmunamál heimilanna í dag að okkur takist að fjölga störfum að nýju. Við höfum nefnt 22 þús. störf. Það eru störfin sem hafa tapast. Við vitum að 11–12 þús. manns eru atvinnulaus í dag og þess vegna er eðlilegt að sumir spyrji hvers vegna sé þörf fyrir að skapa 22 þús. störf. Jú, við þurfum að endurheimta lífskjörin í þessu landi og framleiðsluna sem áður var. Við þurfum að ná aftur þeim fyrri styrk sem við höfðum. Það gerum við með því að skapa hér á landi 22 þús. störf.

Hér eru tillögur um að grípa til aðgerða sem ávallt hafa reynst okkur vel. Við teljum að nú séu skilyrði til þess að auka kvótann um 35 þús. tonn, en þá er algjört grundvallaratriði að úthlutunin fari fram innan kerfisins eins og það er í dag. Fari menn hina leiðina sem sjávarútvegsráðherra mælir stanslaust fyrir, ætli menn að halda áfram á lofti hugmyndinni um fyrningarleiðina, munu menn einungis grafa undan fjárfestingu í þessari grein, auka á óvissuna og óstöðugleikann í kringum greinina og það mun leiða til sóunar. Það er bara það sem mun gerast. Við eigum að taka af skarið um framtíð fiskveiðistjórnarkerfisins. Við eigum að setja vinnu um endurskoðun þess í þann farveg sem við höfum sammælst um. Fyrir liggur skýrsla endurskoðunarnefndarinnar og við eigum að byggja samræðuna áfram á þeirri niðurstöðu og úthlutunin á að fara fram innan kerfisins.

Við færum fyrir því rök í greinargerðinni sem ég ætla ekki að rekja hér í smáatriðum að stofnarnir hafi vaxið svo ört undanfarin ár að það séu full vísindaleg rök fyrir því að bæta nú við nýtingarhlutfall stofnsins. Bæði hrygningarstofninn og viðmiðunarstofninn hafa verið að stækka. Það eru skilyrði uppi sem rúmast innan hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar (Gripið fram í: Nohh.) til þess að auka við þorskkvótann.

Við eigum líka að taka af skarið með fjárfestingar í orkufrekum iðnaði. Það bara gengur ekki að við völd í þessu landi sé ríkisstjórn sem hefur enga ákveðna stefnu um það hvort eigi að virkja, hvort menn vilji fá fjárfestingar inn í landið, hvort það sé stuðningur við verkefni eins og Helguvík á Suðurnesjunum eða önnur slík mál. Það bara gengur ekki lengur.

Ríkisstjórnin verður að fara að horfast í augu við það að ruglið og hringlandahátturinn í kringum t.d. Magma-málið veldur tjóni. Það þýðir ekkert fyrir ráðherrann að koma í ræðustól og halda einhverju öðru fram. Nú síðast í þessari viku var lögð áhersla á að eignarhluturinn í HS Orku yrði ríkisvæddur, það yrði einhvers konar eignarnám. Þessari umræðu verður að fara að ljúka. Ef menn eru með einhverjar væntingar um að orkusölusamningar takist við fjárfestana á Suðurnesjunum, þá sem vilja reisa álver í Helguvík, geta menn ekki haldið á lofti hugmyndum um ríkisvæðingu orkunýtingarfyrirtækjanna. Þetta bara gengur ekki lengur.

Við tölum um að beita hvata til að örva hagkerfið. Það er hægt að nota skattkerfið í margvíslegum tilgangi til örvunar. Gefum t.d. fyrirtækjum sem vilja ráða til sín fólk skattalegt hagræði af því í stað þess að leggja tryggingagjald á nýju störfin.

Loks verð ég að segja í örfáum orðum að í 3. kafla þessarar tillögu — þetta er auðvitað allt of stuttur tími til að fara yfir þetta stóra mál — tölum við um ríkisreksturinn. Bara þannig að það sé sagt hér: Við viljum að markmiðum um (Forseti hringir.) jöfnuð í ríkisfjármálunum eins og hann birtist í áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra (Forseti hringir.) stjórnvalda verði náð þannig að við verðum hér með hallalaus fjárlög árið 2012. Það þýðir mikinn niðurskurð (Forseti hringir.) (Utanrrh.: 2013.) — 2013. Það þýðir mikinn (Forseti hringir.) niðurskurð en við höfum enga aðra kosti en að fara að (Forseti hringir.) endurhugsa það hvernig við stöndum að opinberum rekstri.