139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:06]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni Sjálfstæðisflokksins fyrir framsöguna og þær hugmyndir sem hér liggja til grundvallar. Það er margt mjög gott í þessum hugmyndum. Sérstaklega er ég ánægður með þann kafla sem fjallar um að beita hvötum til að örva hagkerfið þar sem menn tala um skattafslætti til fyrirtækja, þá sérstaklega t.d. að menn leggi til að afsláttur af tryggingagjaldi verði veittur til fyrirtækja sem geta sýnt fram á að störfum hafi fjölgað árin 2011 og 2012 en þeirri hugmynd hreyfði ég einmitt hér í þessum þingsal fyrir réttum mánuði. Ég er hlynntur skattafslætti til hlutabréfakaupa, undanþágu frá tryggingagjaldi og fleiru góðu. Spurningar set ég hins vegar við aðra hluti sem ég mundi kannski hafa undir yfirskriftinni „lán hjá framtíðinni“, t.d. aukningu kvóta og skattlagningu lífeyristekna séreignarsparnaðar.

Ég spyr hv. þingmann: Í hvað ætla menn að nota þessa peninga?

Mín nálgun er sú að við eigum fyrst að örva hagkerfið, örva atvinnulífið til að fjölga störfum, um það erum við sammála, og síðan eigum við að fara í umtalsverðar skattalækkanir og hjálpa þannig atvinnulífinu. Við eigum ekki að setja (Forseti hringir.) rammann í uppnám sem ég óttast að hér sé (Forseti hringir.) verið að leggja til.