139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:12]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að leggja til 10 milljarða kr. skattalækkanir á einstaklingana og rúmlega það á fyrirtækin strax á næsta ári. Síðan segjum við hér: Það þarf að fara í heildarendurskoðun á skattkerfinu með það að markmiði að einfalda það og draga til baka þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur hér innleitt.

Það er spurt um þrepaskipta skattkerfið. Ég er á móti því. Ég er á móti því að við séum með þrepaskipt skattkerfi og háan persónuafslátt. Það er rangt hjá hv. þingmanni að við séum með flatan skatt á Íslandi vegna þess að við erum með hæsta persónuafsláttinn af öllum Norðurlöndunum. Það er leið til þess að skattakúrfan sé ekki flöt, heldur fer hún stigvaxandi. Þeim mun hærri tekjur sem menn eru með, þeim mun hærra hlutfall tekna þeirra fer í skatta. Það er rangt að lýsa gamla skattkerfinu þannig að þetta sé flatur skattur.

Óhagkvæmu skattarnir eru t.d. staðgreiðsluskattar á fjármagnstekjur og skattlagning á arðgreiðslur úr dótturfélögum, kolefnisgjöldin, tryggingagjaldið og annað þess háttar. (Forseti hringir.) Þetta eru óhagkvæmu skattarnir sem eru að fæla fjárfesta frá landinu.