139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég get alveg tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal hvað varðar allar þær upplýsingar sem vantar til að kortleggja skuldavanda heimilanna og komast í gegnum það.

Virðulegi forseti. Það kemur upp í huga minn og rifjast upp aftur til hruntímans, upphafsins, þegar menn fóru að kanna hvað þyrfti að gera. Þá kom í ljós að hvergi í íslenska stjórnkerfinu var hægt að prenta út á einum stað í skyndi upplýsingar um skuldastöðu heimila í landinu og hvað fjölskyldur og aðrir skulda. Seðlabankinn var fenginn til þess verks. Man ég ekki nákvæmlega hvort það var í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eða Samfylkingar og Vinstri grænna en ég man þá stund þegar fulltrúar Seðlabankans komu í ráðherrabústaðinn og kynntu þar fyrir okkur fyrstu niðurstöður og sögðu: Þetta eru samt sem áður ekki fullkomin gögn, okkur vantar upplýsingar varðandi bílalánin. Og áfram var unnið og unnið. Svo kom niðurstaðan og hún var auðvitað ekki glæsileg. En það dapra við framhaldið er svo það að vegna persónuupplýsinga þurfti að eyða öllum þessum gögnum. Þeim var bara eytt.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki almennilega hvaða orð á að nota um svona lagað. Þetta eru náttúrlega hlutir sem verða að vera á borðunum. En ég get auðvitað ekki látið hjá líða að nefna að það hefði verið gott að hafa Þjóðhagsstofnun starfandi sem hefði verið með þessi gögn og hefði getað prentað þau út.

Að lokum varðandi þetta andsvar, virðulegi forseti, þá ætla ég að taka undir það sem hv. þingmaður nefndi úr mínu kjördæmi, sem er annars vegar Becromal-verksmiðjan á Akureyri sem var byggð ákaflega hljóðlega en er stórt og mikið og gott fyrirtæki og svo hins vegar þau jákvæðu tíðindi sem komu í gær eða fyrradag um frekari uppbyggingu hjá Alcoa á Reyðarfirði þar sem verið er að byggja kerverksmiðju, sem eins (Forseti hringir.) og hér kom fram (Forseti hringir.) mun veita allt að 160 (Forseti hringir.) manns vinnu og skapa 70 framtíðarstörf. (Forseti hringir.) Þetta er einn (Forseti hringir.) af þessum jákvæðu þáttum sem hafa komið fram.