139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:40]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram í lokaorðum hv. þm. Kristjáns Möllers í fyrra andsvari hans að það er auðvitað meginatriði að hér séu sköpuð skilyrði fyrir fyrirtæki af öllum stærðum, lítil og meðalstór fyrirtæki ásamt með þeim stórfyrirtækjum sem við höfum nú þegar og munum væntanlega sjá fleiri.

Hv. þingmaður fór sérstaklega í gegnum atvinnumálin í ræðu sinni og kemur kannski ekki á óvart að hann skyldi gera það, enda vitum við að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á þeim þætti mála. Ég vil draga það fram, vegna þess að meginþunginn í ræðu hans fór auðvitað í þau stóru verkefni sem hafa verið í pípunum og sérstaklega var nefnt álverið suður með sjó, að í þeim tillögum sem við sjálfstæðismenn höfum lagt fram og leggjum fram sem innlegg okkar í umræðuna hér fjöllum við töluvert um einmitt lítil og meðalstór fyrirtæki, enda vitum við að þar er meginþungi atvinnustarfseminnar í landinu. Það er mjög mikilvægt að við alþingismenn gerum okkur grein fyrir því að það er þar sem atvinnulífið er borið uppi.

Mig langar að varpa fram spurningu til hv. þm. Kristjáns Möllers og ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem var hér fyrr í dag um störf þingsins. Nú er það svo að þau verkefni sem við tilgreinum í þessari þingsályktunartillögu er m.a. að finna í þeim stöðugleikasáttmála sem undirritaður var fyrir 16 mánuðum að ég tel og hafa ekki enn komist á koppinn. Ég vil því spyrja hv. þm. Kristján Möller í ljósi þess að nú hefur þingflokkur sjálfstæðismanna lagt fram þessa ítarlegu tillögu og í gær var umræða af hálfu Framsóknarflokksins: Hvað telur þingmaðurinn að hægt sé að gera til að ná því fram að atvinnulífið komist í gang og sá hagvöxtur sem við þurfum nauðsynlega á að halda? Ég vil í því sambandi nefna að í spám Seðlabankans hefur verið dregið úr fjárfestingarþætti hagvaxtarspárinnar og þunginn settur á einkaneyslu. (Forseti hringir.) Hvað sér þingmaðurinn (Forseti hringir.) fyrir sér að hægt sé að gera?