139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni í umræðu um þessa tillögu skattana eða skattahlutann þar. Hæstv. utanríkisráðherra gerði það áðan og ég get tekið undir þau orð. Það er ekki með glöðu geði sem núverandi stjórnarflokkar hækka skatta, hvorki á atvinnulífið né fólkið í landinu, í þeirri krísu sem við erum, eftir það þjóðargjaldþrot sem varð. Og enda þótt greiðslustöðvun hafi ekki orðið og það hafi tekist á aðeins einni nóttu að koma í veg fyrir það erum við enn þá að vinna okkur út úr krísunni.

Virðulegi forseti. Þegar ég tala af þeirri bjartsýni sem ég vil hafa varðandi uppbyggingu atvinnulífs og segi að nóvember og desember verði þýðingarmiklir mánuðir í tveimur, þremur, fjórum verkefnum sem munu skapa þúsundir starfa þegar allt fer í gang, þá ítreka ég það sem ég sagði áðan. Það verður ekkert endilega verkefni þessarar ríkisstjórnar að búa þau til. Við þurfum að leggja grunninn að því. Þetta verður alltaf að lokum samkomulag milli kaupenda og seljenda vöru og þjónustu sem þarf að ná fram (Forseti hringir.) og þá er sama hvort það er raforkusala (Forseti hringir.) suður frá eða lán frá lífeyrissjóðunum (Forseti hringir.) til að fara í stórátak í samgöngumálum.