139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[13:04]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ánægður að heyra hjá hv. þingmanni að hann lagði áherslu á hagvöxt vegna þess að það er í raun og veru megininntakið í okkar tillögu, sérstaklega að skapa atvinnu í gegnum hagvöxt. Ríkisstjórnin hefur ekki svarað spurningunni um hvernig við búum til þann hagvöxt ef ekki er farið eftir þeim leiðum sem við leggjum til, þ.e. með því að veiða meira, nýta orkuna og laða hingað þá fjárfesta sem hafa sýnt áhuga. Ef ekki á að fara þær leiðir, hvernig á þá að búa til hagvöxtinn? Möguleikar okkar til hagvaxtar eru í raun og veru það sem skilur okkur frá öðrum ríkjum sem eru í kreppu eins og t.d. Spáni, Portúgal og Ítalíu og öðrum slíkum ríkjum — þau eiga ekki þá möguleika sem við höfum úr að spila. Þegar okkur hefur gengið hvað best að auka lífskjörin á Íslandi hefur það verið á þeim tímum sem við höfum gripið tækifærin til aukins hagvaxtar. Þannig höfum við í gegnum tíðina náð að auka kaupmátt og náð betri lífskjörum og betra velferðar-, heilbrigðis- og menntakerfis en við höfum haft (Forseti hringir.) fram til þess tíma.