139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[13:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Árna Þór Sigurðssyni fyrir jákvæðar undirtektir við tillögur Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað eru menn ekki sammála um alla þætti. Það sem ég vildi gera að umtalsefni er að hann taldi hættulegt að ganga á auðlindir, eins og að veiða meira. Ef við veiðum meira núna er náttúrlega ljóst að við getum veitt minna í framtíðinni. Ef við virkjum hins vegar meira núna, allt vatnsafl, göngum við ekki á framtíðina. Hið sama á við um séreignarsparnaðinn. Þar náum við vissulega í eignir ríkissjóðs núna í staðinn fyrir að ná í þær þegar lífeyrir er greiddur út.

Þá er það spurningin sem ég vil spyrja hv. þingmann. Er ekki mikilvægara fyrir þjóðina að hafa vinnu núna heldur en eftir tíu ár? Erum við ekki, að mínu mati alla vega, að stefna lóðbeint í stöðnun sem veldur enn meiri brottflutningi fólks, enn minni fjárfestingu og enn minni neyslu í þjóðfélaginu og getur orðið stórhættuleg?