139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[13:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrir mér er málið óskaplega einfalt. Ef ráðherra verður uppvís að því að hafa með ásetningi logið að þinginu, eins og hv. þingmaður orðaði það, hlýtur þingið að draga til baka traust sitt á þeim ráðherra. Þá hlýtur það að bera fram vantraust á hann. Slíkur ráðherra á að segja af sér, tel ég. Mér finnst það litlu skipta hvort svona er sett í lög.

Það er líka algjörlega skýrt að ráðherrar eiga að svara fyrirspurnum sem til þeirra er beint. Matið er mismunandi á því hvenær ráðherrum finnst þeir hafa svarað fyrirspurnum. Oft er það þannig að í slíkum umræðum teygist mál manna, þingmanna sem hæstv. ráðherra, út um víðan völl. Oft ber á því að pólitísk átök leiða til þess að það verða hnippingar. Það leiðir gjarnan til þess að þingmönnum finnst þá að málinu sé ekki svarað. En ráðherra reynir alla jafna að greina frá þeim upplýsingum sem eftir er leitað, ég held að það sé hin almenna regla og ég veit ekki hvort það skiptir einhverju máli þó það sé sett sérstaklega í lög. Eins og hv. þingmaður sagði er hefðin sú og hæstv. forseti skikkar stundum ráðherra til ef viðkomandi forseta finnst sem ekki sé nægilega upplýst um mál.

Hitt vildi ég spyrja hv. þingmann um, af því að hún segir að þetta sé flutt að gefnu tilefni: Af hverju upplýsir hún ekki um það tilefni? Af hverju upplýsir hún ekki þingheim um það hvaða ráðherrar það voru, eins og hún sagði, sem sögðu ítrekað ósatt á þinginu í aðdraganda hrunsins? Það var það sem hv. þingmaður sagði. Rétt er að hún upplýsi það. Ég hefði gaman að því.