139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[13:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni Eygló Harðardóttur fyrir þetta frumvarp. Það er reyndar dálítið undarlegt að menn skuli þurfa að flytja frumvörp um hluti sem ættu að vera sjálfsagðir. Það virðist vera einhvers konar kennsla í mannasiðum með lögum.

Svo ég tali um eitthvað allt annað, frú forseti, þá hefur fjöldi fólks, bæði öryrkjar og atvinnulausir, talað við mig og kvartað mikið undan því að umsóknum um störf sem eru auglýst sé ekki svarað. Það er mjög niðurbrjótandi fyrir þetta fólk og getur eyðilagt líf manna á ákveðnum tíma. Ég skil ekki þann skort á mannasiðum að svara ekki þegar einhver sækir um starf hjá fyrirtæki. Þetta er af sama meiði. Ég er mikið á móti forræðishyggju eða slíku en það liggur við, og mér hefur oft flogið það í hug, að setja þurfi lög um að skylt sé að svara atvinnuumsóknum því það eru líka mannasiðir. Maður skilur ekki þennan skort á mannasiðum. Frumvarpið sem við ræðum hér er kannski af svipuðum toga.

Frú forseti. Það sem mig langaði mest til að tala um er þingskjal 15 eða réttara sagt þingskjal 106 með svari frá hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn sem ég lagði fram 4. október á þingskjali 15. Þetta svar barst reyndar of seint, 21. október, en ég geri ekki athugasemdir við það. Það sem ég geri athugasemdir við er svarið, vegna þess að ég spurði mjög klippt og skorið, með leyfi frú forseta:

„Hver var fjárhæð láns frá breskum yfirvöldum í pundum sem ráðherra veitti ríkisábyrgð á með undirskrift sinni 5. júní 2009?“

Í 2. lið er spurt svipaðrar spurningar varðandi hollensk yfirvöld. Í 3. lið spurningarinnar spurði ég:

„Hversu há var þessi ríkisábyrgð í krónum á gengi undirskriftardags?“

Þá kemur dálítið merkilegt í ljós, frú forseti. Í svari við fyrstu spurningunni segir á þingskjali 106, og ég ætla að fá að lesa aftur, með leyfi frú forseta:

„Fjárhæð sú sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta tók samkvæmt áformuðum samningum að láni frá breskum yfirvöldum var samkvæmt samningum frá 5. júní 2009 2.350 milljónir sterlingspunda. Á þeim tíma var gert ráð fyrir að endurgreiðslur þrotabúsins yrðu 75–95% af forgangskröfum í búið. Miðað við miðtöluna á því bili, 85%, yrði sú fjárhæð sem ábyrgð var tekin á vegna höfuðstóls lánsins 352,5 milljónir sterlingspunda.“

Það var ekki spurt um þetta, frú forseti. Ekki var spurt hvort til kæmu einhverjar endurgreiðslur eða hvort upphæðin væri eitthvað lægri. Spurt var nákvæmlega um upphæð lánsins. Þegar þetta er síðan reiknað í íslenskar krónur þá gleyma þeir í fjármálaráðuneytinu eða hæstv. fjármálaráðherra gleymir að reikna af stóru upphæðinni. Hann reiknar af upphæðinni eftir einhverjar endurgreiðslur sem búist er við frá þrotabúi Landsbankans. Þannig fær hann út í svari við lið 3, út frá því að miðgengi á sterlingspundi 5. júní var 197,07 kr. og miðgengi á evru sama dag var 173,72 kr., að ríkisábyrgðin samkvæmt 1. tölulið sé 69,5 milljarðar kr. og fjárhæðin til Hollendinga samkvæmt 2. tölulið sé 34,6 milljarðar kr. Hann fær út samtals 104,1 milljarð kr.

Frú forseti. Þarna er verið — hvað á ég að kalla það? Ég vil ekki kalla það lygi af því ég er jákvæður maður. Því sem spurt er, er ekki svarað. Svarað er einhverju allt öðru. Það er nefnilega þannig, ef maður reiknar þetta út í excel sem ég gerði núna rétt áðan, að þetta eru samanlagt 693.988 milljónir. Þetta eru tæpir 700 milljarðar króna á skuldabréfinu sem hæstv. fjármálaráðherra skrifaði undir. Þetta vildi ég fá fram. En ég þarf að reikna það út sjálfur af því það kemur ekki fram í skriflegu svari hæstv. fjármálaráðherra. Í því svari er svarað einhverju allt öðru sem hann gefur sér.

Ég geri alvarlegar athugasemdir við þetta. Ég vildi nefnilega fá að vita hvaða skuldbindingu ríkissjóður hefði tekið á sig með undirskriftinni 5. júní 2009 og hvaða vexti ætti að reikna af því, því vextirnir eru reiknaðir á þá upphæð en ekki einhverja gerviupphæð sem hæstv. fjármálaráðherra svaraði mér. Þetta finnst mér alvarlegt. Þess vegna vildi ég koma hér í þessa umræðu og segja að í rauninni þarf að setja lög um það að menn gefi ekki rangar upplýsingar.

Svo spyr ég um kostnað ríkisins, áfallna vexti og af hverju þetta var ekki í fjárlögum. Því síðastnefnda, af hverju þetta var ekki í fjárlögum, er líka svarað út í hött. Lög höfðu verið samþykkt. Þau voru samþykkt 30. desember árið 2009. Fjármálaráðherra var löngu búinn að skrifa undir þetta. Hann var búinn að flytja frumvarp um þetta. Ríkisstjórnarflokkarnir voru búnir að samþykkja það. Samt er ekki talað um vextina af þessari upphæð í fjárlögum eða fjáraukalögum Henni er bara meðvitað gleymt. Svo kom forseti Íslands sem betur fer, og bjargaði hæstv. fjármálaráðherra fyrir horn og þjóðin náttúrlega í kjölfarið sem neitaði þessum ósköpum, þessum 700 milljörðum sem ég vildi fá fram með fyrirspurninni. Það náðist ekki fram, frú forseti.

Þó maður sé allur af vilja gerður að vera jákvæður og vinna saman í framtíðinni og allt slíkt, finnst mér að skrifleg svör og munnleg að sjálfsögðu líka, eigi að vera sannleikanum samkvæmt og ekki skálduð svör þar sem menn taka eitthvað allt annað inn.

Í svarinu um það af hverju þetta var ekki sett í lög, segir:

„Lög nr. 1/2010“ — þ.e. fjárlögin — „hefðu engu breytt um framangreindar fjárhæðir. Þær breytingar á fyrirhuguðum samningum sem þau byggðust á fólu ekki í sér breytingar á þeim efnisatriðum sem hafa áhrif á útreikning vaxta og kostnaðar ríkissjóðs af ríkisábyrgðinni.“

Maður er bara alveg gáttaður. Ef undirskrift hæstv. fjármálaráðherra hefði eitthvert gildi, sem hún á náttúrlega að hafa — hann er að skuldbinda ríkissjóð — og sett eru lög þremur dögum seinna eftir að fjárlögin eru samþykkt, þá á að sjálfsögðu að geta þess í fjárlögum íslenska ríkisins að borga eigi 5,55% Svavarsvexti af þessari gífurlegu upphæð. Þetta var ekki nefnt í fjárlögunum fyrir næsta ár, hvað þá í fjáraukalögum fyrir árið sem var að líða því skuldbindingin bar vexti frá 1. janúar 2009.

Ég held að við þurfum að ræða þetta miklu, miklu betur, frú forseti. Ég vil óska eftir því að forseti kanni þetta skriflega svar á þingskjali 106 og barst 21. október. Kannað verði sérstaklega hvort þetta svar sé sannleikanum samkvæmt því spurningunni sem spurt var um er ekki svarað. Svarað er einhverju allt öðru sem hentar hæstv. fjármálaráðherra betur.

Þess vegna vildi ég koma inn í þetta mál sem fjallar einmitt um að menn leyni ekki upplýsingum á hinu háa Alþingi.