139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[13:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að skoða þetta miklu betur. Ég legg til að þeir sem hlýða á mál mitt, bæði hv. þingmenn og aðrir, lesi þessi tvö þingskjöl til að átta sig á því. Þá getur hver og einn dæmt um það hvort svarið sé í samræmi við spurninguna og eins hvort þetta hefði ekki átt heima í fjárlögum og fjáraukalögum. Ég minni á að samkvæmt stjórnarskránni sem við höfum svarið eið að er ekki hægt að skuldbinda ríkissjóð nema með fjárlögum eða fjáraukalögum. Engin yfirlýsing t.d. getur tryggt innstæður á landinu. Það er ekki hægt. Ekki er hægt að tryggja eða taka ábyrgðir fyrir hönd ríkissjóðs eða skuldbinda hann á einhvern hátt nema með fjárlögum eða fjáraukalögum. Það var ekki gert með Icesave-málið. Samt vissi enginn annað en þau lög tækju gildi, þau voru samþykkt hér á Alþingi 30. desember. Þeir þingmenn sem samþykktu þau þurfa að sjálfsögðu að svara því hvernig í ósköpunum þeim datt sá gerningur í hug. Eins og ég gat um áðan bjargaði forsetinn því fyrir horn og svo tók þjóðin af skarið og leiðrétti þessa vitleysu. En þetta átti að sjálfsögðu að vera í fjárlögum og fjáraukalögum vegna þess að ekki er hægt að samþykkja lög eða skrifa undir samning sem skuldbindur ríkissjóð nema það sé gert með fjárlögum eða fjáraukalögum. Það var ekki gert.

Ég skora á alla, jafnt löglærða sem ólöglærða og þingmenn sem fólk utan þings, að skoða þingskjölin tvö sem ég nefndi hérna, þingskjal 15 og þingskjal 106.