139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að vitanlega er ekkert hægt að fullyrða í málinu. Eina sem við höfum í raun fyrir okkur er ritaður texti á blaði, þ.e. orð sem voru flutt úr þessum ræðustól. Annars vegur er þingheimur fullvissaður um það 3. júní að ekki sé verið að ganga frá samkomulagi á morgun eða næstu daga. Þann 5. júní hins vegar virðist hafa orðið gríðarleg framþróun í þessu flókna máli, á einum og hálfum sólarhring eða tæplega tveimur, því á borð þingflokkanna er skellt drögum að samningi, eða í rauninni ekki drögum heldur samningi sem búið er að undirrita af formanni samninganefndarinnar fyrir hönd fjármálaráðuneytisins.

Ég er því sammála hv. þingmanni um að mikilvægt sé að kveða skýrt á um hvernig framkvæmdarvaldið kemur fram gagnvart Alþingi. Það er ágætt að hér var rifjað upp að þetta sé 20 ára gömul umræða eða svo, sem fyrrverandi þingmaður og ráðherra Páll Pétursson beitti sér fyrir fyrir nokkuð löngu síðan. Þá er ekki seinna vænna en að við tökum á málum því það er vitanlega óþolandi fyrir Alþingi, löggjafarsamkomu þjóðarinnar, að framkvæmdarvaldið geti mögulega komist upp með að svara ekki með réttum hætti eða segja satt frá þegar fulltrúar þess eru spurðir í ræðustól á Alþingi.

Ég fagna því sem fram hefur komið að tillaga liggi fyrir um rannsókn á því hvernig staðið var að Icesave-málinu. Ég mun að sjálfsögðu styðja þá tillögu heils hugar því mér finnst hún mjög nauðsynleg. Það er mikilvægt að velta því upp hvernig þetta gríðarstóra mál sem hefur þvælst hér fram og til baka er til komið.