139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:14]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að ég er alls ekki þeirrar skoðunar að hugmyndir sem eru annaðhvort gamlar eða hafa komið fram áður séu slæmar. Síður en svo. Þetta er dæmi um hugmynd sem áður hefur verið rædd í sölum Alþingis en á kannski frekar við nú en þegar hún kom fram í upphafi.

Ég vil ítreka það, vegna orða þingmannsins, að ég er mjög vantrúaður á að í þessu mikla og þunga máli, í þeim erfiðu samningaviðræðum sem íslensk stjórnvöld áttu í við Breta og Hollendinga í einhverri erfiðustu milliríkjadeilu sem landið hefur staðið frammi fyrir, hafi vendingar í samningaviðræðunum orðið slíkar og orðið svo gríðarleg framþróun á tveimur dögum í málinu að það hafi leitt til lendingar sem síðan endaði með undirskrift íslenskra stjórnvalda. Ég er ekki trúaður á það og þykist vita að slíkar niðurstöður í svo erfiðum málum fáist með lengri aðdraganda en þeim sem hér er nefndur.

Við getum fengið þetta allt saman upplýst. Það verður gert með því að málið verði rannsakað. Til eru fjölmörg gögn innan stjórnsýslunnar um samskipti íslenskra stjórnvalda við bresk og hollensk stjórnvöld, tölvupóstar og formleg bréfaskipti, fyrir nú utan alla þá vitneskju sem þeir sem tóku þátt í samningaviðræðunum búa yfir. Með því að skipa sérstaka rannsóknarnefnd sem hefur sambærileg rannsóknarúrræði og rannsóknarnefnd Alþingis hafði er hægt að komast í öll þau gögn og upplýsa í eitt skipti fyrir öll hvernig staðið var að málum. Þá getum við tekið afstöðu til þess hvað er satt og hvað er rétt í málinu en fyrr líklega ekki.