139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:16]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson beindi til mín spurningu í ræðu sinni. Ég mundi gjarnan vilja fá að svara henni, og þakka um leið þann stuðning við málið sem þingmaðurinn lýsti yfir. Ég vonast svo sannarlega til að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar í allsherjarnefnd og þakka kærlega fyrir þau orð sem hann lét falla um að hann mundi gera sitt til að tryggja að svo verði.

Þingmaðurinn spurði af hverju ekki hefði verið tekið tillit til ábendinga hans varðandi ráðherraábyrgðarlögin í tillögunum sem þingmannanefndin lagði fram. Eins og við munum öll sem greiddum atkvæði um þingsályktunina sem fylgdi skýrslu þingmannanefndarinnar varð niðurstaðan af þeirri atkvæðagreiðslu 63:0. Það er í fyrsta skipti á mínum stutta þingferli sem ég hef séð þá tölu. Ég er nokkuð viss um að það hefur nú örugglega ekki heldur komið oft fyrir á sjö ára ferli hv. þingmanns að hann hafi séð þessa tölu á atkvæðaborðinu hjá okkur.

Ástæðan er náttúrlega sú að það fóru fram miklar umræður í þingmannanefndinni þar sem við reyndum að komast að niðurstöðu um ályktunarorð sem við gátum öll verið sammála um. Niðurstaðan var sú að við vorum sammála um að segja að endurskoða þyrfti ráðherraábyrgðarlögin en við vorum hins vegar ekki sammála um hvað ætti að endurskoða í þeim. Þetta er það sem ég lagði mesta áherslu á og ástæðan fyrir því að ég var svo sammála þessari setningu var að ég vildi bæta við þessu ákvæði á meðan aðrir þingmenn vildu kannski frekar taka út ákvæði í ráðherraábyrgðarlögunum eða umorða þau. Það var ástæðan fyrir því að ekki var nánar tilgreint hvernig ætti að breyta lögunum sjálfum. Á móti vildi ég hins vegar gjarnan leggja fram þessa hugmynd mína um hvernig breyta ætti lögunum. Þess vegna er frumvarpið (Forseti hringir.) komið fram hérna.