139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um ráðherraábyrgð sem hv. þingmenn Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og fleiri flytja. Ég vil, að mér sýnist í lok þessarar umræðu, þakka hv. þingmönnum fyrir þetta frumkvæði og það að við skulum vera farin að horfa fram á veginn um það hvernig við ætlum að haga störfum okkar hér á Alþingi og í stjórnsýslunni vonandi um ókomna tíð.

Eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi réttilega í umræðunni áðan er það svo að trúnaðarbrestur hefur orðið, a.m.k. á milli hluta þeirra þingmanna sem sitja hér á Alþingi og framkvæmdarvaldsins. Það hefur skort á traust í þeim efnum. Því er lagt til hér að hnykkja á því hvert hlutverk framkvæmdarvaldsins er gagnvart Alþingi og að menn eigi að fara þar eftir þingsköpum og jafnframt er lagt til að því verði bætt við og áréttað í lögum þessum að ef ráðherra af ásetningi gefur Alþingi rangar upplýsingar eða við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum þá varði það við lög um ráðherraábyrgð.

Ég held að þetta sé hið besta mál. Mér heyrist að mikill samhljómur sé hér á þingi um það að frumvarpið nái í gegn. Eins og flutningsmenn benda á erum við ekki að finna upp hjólið hér heldur er hér verið að vitna í að svipaðar reglur gilda í Danmörku, ekki satt? Ég held við getum reynt að læra af þjóðum sem eru með sterka lýðræðishefð eins og við en hafa kannski sýnt meiri aga og meiri festu í störfum á sínum löggjafarþingum og þá í samskiptum við framkvæmdarvaldið en við höfum upplifað hér á Íslandi á undangengnum vikum og mánuðum.

Ég vil líka vekja athygli á því sem hv. þingmenn nefna að nú er verið að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á þingskapalögum. Þar er kveðið á um það að þingnefndir eigi eftir þá breytingu að eiga ríkari aðgang að gögnum en almenningur á rétt á samkvæmt upplýsingalögum. Með þeim hætti er aðhalds- og eftirlitshlutverk fastanefnda þingsins fest í sessi. Þetta finnst mér mjög mikilvægt innlegg í þetta mál vegna þess að ég held að við getum öll tekið undir það að því eftirlitshlutverki sem Alþingi á að hafa gagnvart framkvæmdarvaldinu hefur um langa hríð verið mjög ábótavant, ekki einungis á undangengnum tveimur árum. Okkur hefur að mörgu leyti skort tæki og tól til að kalla fram upplýsingar. Ég mundi vilja sjá það í miklu meira mæli að þingnefndirnar geti kallað ráðherra á sinn fund og kallað eftir ákveðnum gögnum sem við höfum jafnvel ekki haft aðgang að. Ég tel því að þetta sé mikilvægt. Þó það sé ekki beint hluti af þessu máli er það í beinu samhengi í allri þessari umræðu sem við tölum fyrir hér.

Ég er samþykkur þessu máli. Mér finnst ótrúlegt að hv. þingmenn nefni það að þetta mál hafi verið lagt fram fyrir nokkuð löngu af hv. þm. Páli Péturssyni, að þetta skuli ekki hafa verið innleitt fyrr í lög og málið hafi ekki þá náð fram að ganga. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með þá ágætu umræðu sem átt hefur sér stað um þetta mál. Hér er um framfaraskref að ræða. Það er þannig í dag, við skulum ekkert leyna því, og allir sjá það á þeirri umræðu sem fer hér fram daglega, að tilfinnanlega skortir traust á milli margra alþingismanna og þeirra aðila sem gegna ráðherrastörfum.

Við verðum allt of oft vitni að því að við fáum ekki fullnægjandi svör við þeim spurningum sem við leggjum fram. Við rekum okkur líka allt of oft á það að ráðherrar virða ekki tímafrest varðandi fyrirspurnir sem hér eru lagðar fram. Fyrirspurnir liggja jafnvel í ráðuneytum svo mánuðum skiptir án þess að við fáum nokkrar útskýringar á því. Þá þurfum við, eftir jafnvel tveggja, þriggja mánaða bið, að koma hingað upp, svo skemmtilegt sem það er, undir liðnum um fundarstjórn forseta, til að minna á að ráðherrar eru að fara á svig við sjálf þingsköpin. Það er náttúrlega eitthvað að í öllu þessu, þetta ætti ekki að vera með þessum hætti.

Ég tel að við þurfum að taka strangar á þessum málum. Ég fagna því frumvarpinu. Ég vil líka fagna því að með þessu erum við, að mínu viti, að halda áfram með mjög ágæta umræðu sem við áttum um þá skýrslu sem þingmannanefndin lagði fram, um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég man að það var mjög skemmtileg umræða í þá þrjá daga þar sem við töluðum þvert á flokka um það hvernig við vildum breyta umræðuhefðinni hér, starfsaðferðunum og fleira eftir því.

Ég fagna því að hv. þingmenn eru farnir að vinna í þeim anda, þeim góða anda sem náðist þvert á alla flokka í þeirri nefnd — horfi ég nú á hæstv. forseta í þeim efnum. Ég tel að allir þingmenn hafi gert þar mjög góða hluti og þetta sé tímamótaplagg. Það má heldur ekki gleymast að við verðum að halda áfram að vinna í þeim anda sem þar kom fram og þetta frumvarp er svo sannarlega til þess fallið.

Svo ég sé alveg hreinskilinn: Það hefði verið hægt að snúa út úr þessari umræðu hér og setja hana í eitthvert leiðinlegt far. Ég er mjög ánægður að sjá hvernig þingmenn hafa nálgast það frumvarp sem við ræðum hér. Við erum fyrst og fremst að horfa fram á veginn þegar við ræðum þessi mál, það hefur ekkert upp á sig að horfa endalaust aftur fyrir sig. Þannig að ég hvet okkur öll til að leggja fram fleiri frumvörp sem horfa til framfara, bættra vinnubragða og umræðuhefðar hér í þinginu líkt og þetta mál gerir. Verði þetta frumvarp samþykkt, sem ég tel allar líkur vera á, held ég að aðhald gagnvart framkvæmdarvaldinu muni aukast til muna af hálfu þingsins. Það veitir svo sannarlega ekki af því og að menn hafi þó það yfir sér — og ekki ætla ég að gera mönnum það í framtíðinni að þeir ætli vísvitandi að svara þinginu með einhverjum ósannindum, en fyrst það er sjálfsagður hlutur að menn geri það ekki er a.m.k. ekkert að því að innleiða það í lög.

Ég fagna frumvarpinu og vona að það verði leyst farsællega á vettvangi allsherjarnefndar, að það fái vandaða umfjöllun og umræðu þar. Ég fer síðan fram á að þetta mál verði afgreitt úr nefndinni til atkvæða hér. Þá geta menn sagt já eða nei. Ég hef trú á því að það verði miklu fleiri sem segi já við frumvarpinu sem hv. þingmenn Eygló Harðardóttir, 1. flutningsmaður, og Sigurður Ingi Jóhannsson, 2. flutningsmaður, þingmenn Framsóknarflokksins, hafa lagt fram. Frumvarpið er í átt til framfara og í átt að betri vinnubrögðum á þessum vinnustað.