139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir jákvæðar undirtektir við frumvarpið, ég tel að það horfi til bóta og ekki að ástæðulausu.

Mig langar að bera undir hann 7. spurningu, sem ég lagði fyrir hæstv. fjármálaráðherra, á þskj. 15, og fékk svar við. Spurningin var eftirfarandi:

Hvers vegna var ekki minnst á ríkisábyrgð og áfallnar skuldbindingar vegna samninga og viðaukasamninga við bresk og hollensk yfirvöld, sem ráðherra hafði undirritað 19. október 2009, í fjárlögum fyrir árið 2010 og í fjáraukalögum fyrir árið 2009 sem samþykkt voru í árslok 2009?

Ég spyr hv. þingmann að þessu sérstaklega af því hann er og var varaformaður fjárlaganefndar.

Ég fékk svar, með leyfi forseta:

„Ríkisábyrgð verður ekki veitt nema með samþykki Alþingis og samningarnir öðluðust ekki gildi án slíkrar ábyrgðar. Þar sem það samþykki Alþingis lá ekki fyrir við gerð fjárlaga 2010 og fjáraukalaga fyrir 2009 var engin ríkisábyrgð til staðar og því engar forsendur til að reikningsfæra kostnað af ríkisábyrgð.“

Nú eru fjárlög til þess að meta væntanlegar skuldbindingar ríkissjóðs á næsta ári. Er það þannig að fjárlaganefnd og hv. þingmaður töldu ekkert mark takandi á undirskrift fjármálaráðherra? Var hún einskis virði og áttu sem sagt erlendir aðilar ekki að geta treyst því að þetta yrði að lögum, sem reyndar varð átta dögum seinna?

Þetta svar segir mér að fjárlaganefnd, sem vissi af þessum samningi — það var nú ekki lítið búið að ræða um Icesave, og hv. þingmaður stóð nú aldeilis sterkt að því að samþykkja það, og þarf náttúrlega að svara kjósendum og öllum Íslendingum, af hverju í ósköpunum hann gerði það, í ljósi þeirrar stöðu sem er: Er ekkert að marka undirskrift fjármálaráðherra og frumvarp sem hann flutti?