139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Icesave.

[15:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur að undanförnu ferðast töluvert eins og fylgir starfi ráðherrans og á ferðum sínum oft verið með miklar yfirlýsingar um eitt og annað en ekki hvað síst stöðu mála í Icesave-deilunni margumræddu. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir oftar en einu sinni að þeirri deilu sé að ljúka með samningum, það sé einfaldlega stutt í að deilunni ljúki með mun hagstæðari samningum en áður var gert ráð fyrir.

Hæstv. fjármálaráðherra svaraði þessu hins vegar í viðtali í ríkissjónvarpinu á þann hátt að það væri of snemmt að tala um upphæðir eða tímasetningar í þessu sambandi og sagðist mundu þá taka að sér að vera sá varfærni í samanburði við hæstv. utanríkisráðherra. Spurningin er þá: Hefur hæstv. ráðherra verið óvarfærinn í yfirlýsingum sínum eða hver er staðan í Icesave-málinu? Hvernig er hæstv. ráðherra inni í því máli? Fylgist hann þar með? Hefur hann beitt sér í málinu og reynt að hafa áhrif á gang þess? Hver telur hæstv. utanríkisráðherra að staðan sé í Icesave-málinu?

Jafnframt vildi ég spyrja hæstv. ráðherra annarrar spurningar í ljósi þess að hann er mikill lýðræðissinni og hefur tjáð sig töluvert um þau mál að undanförnu. Þar sem Icesave-málið fór á sínum tíma í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem niðurstaðan var mjög afgerandi væri þá ekki hæpið fyrir þingið að ætla síðan að klára málið sjálft án þess að þjóðin hefði nokkuð um þá niðurstöðu að segja? Með öðrum orðum, er ekki eðlilegt úr því sem komið er í ljósi þess að málið hefur þegar farið til þjóðarinnar að þjóðin fái aftur að hafa síðasta orðið?