139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Icesave.

[15:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Sem stjórnmálamaður er ég svo gamall sem á grönum má sjá og ég skal gera þá játningu gagnvart hv. þingmanni að a.m.k. á fyrri parti ferils míns var ekki talað sérstaklega hátt um það að ég væri sérstaklega varfærinn stjórnmálamaður. (SKK: Það hefur kannski breyst.) Það kann vel að vera, eins og mér heyrist á hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að það hafi breyst og ég veit ekki hvort það er til batnaðar. (Gripið fram í.) En ég hef ekkert lagt mig sérstaklega fram um það að vera varfærinn stjórnmálamaður. Ég held að ef menn vilja vera alvörustjórnmálamenn þurfi þeir stundum að taka nokkra áhættu.

Varðandi það mál sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. Icesave-málið, vísar hann í viðtal sem tekið var við mig fyrir skömmu. Það sem ég sagði þar var tvennt, í fyrsta lagi að ég vonaðist til þess að það yrði alvarleg þróun, „serious development“, með leyfi forseta, í þessum mánuði og sömuleiðis leyfði ég mér allra virðingarfyllst að vonast eftir því að málinu lyki fyrir áramót. Ég veit að hv. þingmaður deilir þeirri von með mér. Ég er þeirrar skoðunar að það skipti miklu máli að við leiðum þá deilu til lykta. Ég taldi að miðað við þá yfirlýsingu sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gaf að kvöldi 5. janúar á þessu ári væri hann sammála mér um það. Hv. þingmaður lýsti því þá yfir fyrir hönd Framsóknarflokksins að hann vildi fá lausn um þetta mál. Allir formenn stjórnmálaflokka á Íslandi gerðu það. Ég hef aldrei úttalað mig um það með hvaða hætti sú lausn sem nú er í gangi kynni að vera. Ég er ekki beinn aðili að þessum samningum eins og hv. þingmaður veit. Hins vegar er ég þeirrar gæfu og heiðurs aðnjótandi að fá að sitja með honum og nokkrum fleiri stundum þegar samráðsfundir eru haldnir um slíkt.

Ráðuneytisstjóri minn hefur komið að þessu málum. Ég hef nokkuð svipaða vitneskju um stöðu málsins og ég veit að hv. formaður Framsóknarflokksins hefur.