139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

njósnir í þágu USA í höfuðborgum Norðurlanda.

[15:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Í síðustu viku var upplýst að bandarísk stjórnvöld hafa í a.m.k. 10 ár rekið sérstakar og leynilegar njósnasveitir í 200 löndum, þar á meðal í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Sveitirnar hafa aðstöðu í allra næsta nágrenni bandarísku sendiráðanna, í þeim eru 15–20 manns sem fylgjast með öllu sem fram fer og þeim sem leið eiga um, ljósmynda og veita eftirför einstaklingum sem þeim finnast grunsamlegir og gætu að þeirra mati ógnað hagsmunum eða eignum Bandaríkjamanna.

Njósnasveitirnar safna upplýsingum 24 tíma í sólarhring allan ársins hring og skrá upplýsingarnar sem þær safna í bandarískan gagnagrunn sem nefnist SIMAS og er samtengdur um heim allan. Um þennan gagnagrunn má lesa á heimasíðu bandaríska utanríkisráðuneytisins og þar kemur fram hvernig upplýsingar eru varðveittar og hvernig með þær er farið.

Þegar tilvist starfsemi af þessu tagi er staðfest í Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi liggur beinast við að álykta sem svo að hún fari einnig fram hér á landi. Því er eðlilegt að spyrja hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra hvort hann hafi kynnt sér það sem fram hefur komið um þessa leynilegu njósnastarfsemi á undanförnum dögum í höfuðborgum hinna Norðurlandanna, hvort hann hafi kannað sérstaklega hvort viðlíka starfsemi fer fram í nágrenni bandaríska sendiráðsins á Laufásvegi eða í Þingholtsstræti, þ.e. hvort íslenskir ríkisborgarar séu vaktaðir og skráðir í gagnagrunninn SIMAS. Ef svo er, hvort það sé gert með vitund íslenskra stjórnvalda eða jafnvel með leyfi þeirra, og þá með hvaða lagaheimild. En viti ráðherrann ekki um slíka starfsemi hér spyr ég hvort hann muni hafa frumkvæði að því að rannsaka hvort njósnað er um og haft eftirlit með íslenskum ríkisborgurum með sama hætti og á Norðurlöndunum og hvort hann muni gefa þinginu skýrslu um rannsókn sína á því á sama hátt og starfsbræður hans á hinum Norðurlöndunum hyggjast gera.