139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

njósnir í þágu USA í höfuðborgum Norðurlanda.

[15:30]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Já, mér er kunnugt um fréttir frá Norðurlöndunum þess efnis að Bandaríkjamenn hafi haldið úti sveitum manna til að fylgjast með ferðum fólks við sendiráðin og komið upp gagnagrunnum af því tilefni. Það hefur komið fyrir þingin erlendis. Ég hef leitað upplýsinga innan dómsmálaráðuneytisins um þessi mál en vek athygli á að samskipti sendiráða, þar á meðal hins bandaríska við íslensk stjórnvöld, fara í gegnum utanríkisráðuneytið. Hvað varðar aðkomu íslenskra lögregluyfirvalda, sem spurt er um, hef ég leitað eftir upplýsingum, eins og ég segi, í íslenska dómsmálaráðuneytinu.

Ég hef átt fund með ríkislögreglustjóra um þetta efni og farið þess á leit við hann að hann geri mér grein fyrir því hvort eitthvað sambærilegt hafi átt sér stað og ásakanir eru uppi um á Norðurlöndunum að gerst hafi þar. Ég mun verða við beiðni hv. þingmanns um að flytja þinginu skýrslu um það efni þegar upplýsingar liggja fyrir.