139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

njósnir í þágu USA í höfuðborgum Norðurlanda.

[15:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir þessi svör. Ég ætlaði mér fyrst að beina þessum fyrirspurnum til hæstv. utanríkisráðherra en að athuguðu máli heyrir málið auðvitað beint til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis. Ég fagna því að hæstv. ráðherra mun láta kanna málið og leggja niðurstöður þess fyrir þingið.

Ég geri ekki lítið úr því að bandarísk sendiráð eru hættusvæði vegna stríðsrekstrar Bandaríkjamanna víða um heim fyrr og nú. Þess vegna þarf að tryggja bandarískum sendiráðum sérstaka vernd og öryggi, jafnvel umfram önnur sendiráð. En, frú forseti, slík trygging má aldrei vera á kostnað mannréttinda eða persónufrelsis almennra borgara eða þeirra sem eru svo óheppnir að búa í næsta nágrenni sendiráðsins sem er í miðju íbúðahverfi í Reykjavík.