139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Miklar umræður hafa verið í þinginu um ákvörðun sjávarútvegsráðherra varðandi úthafsrækjuveiðar og farið hafa fram utandagskrárumræður um það málefni. Bornar hafa verið fram óundirbúnar fyrirspurnir gagnvart hæstv. sjávarútvegsráðherra en hann hefur í engu svarað þeim alvarlegu ásökunum sem á hann eru bornar í þessum efnum. Hann hefur í engu svarað því lögfræðiáliti sem rökstyður mjög glöggt að hann sé að brjóta lög með þeirri ákvörðun sinni og embættismenn ráðuneytisins komu að því á fundi sjávarútvegsnefndar að svör mundu liggja fyrir innan skamms.

Af því tilefni lagði ég fram skriflega fyrirspurn til hæstv. ráðherra þann 18. október og það er eftir öðru í þessu máli að hann hefur ekki fylgt þingsköpum um að gefa þau svör sem óskað er eftir að hann gefi í þessu máli. Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta að hún gangi eftir því við ráðherra að hann komi fram af virðingu við þingið í þessu máli. Hann hefur sýnt algera vanvirðingu gagnvart þingi og þingmönnum og slík vinnubrögð geta ekki gengið til lengdar.