139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var kvartað undan því að ráðherrar svari ekki Alþingi. Ég bar fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra skriflega og ég fékk svar sem átti ekki við þá spurningu sem ég spurði. Þegar ég spurði hversu há ríkisábyrgðin væri, þ.e. á Icesave í krónum á gengi undirskriftardags, var mér sagt að það væru 104 milljarðar en þar var meðtalið það sem Landsbankinn greiðir hugsanlega í þessu efni. En skuldabréfið sem skrifað var undir var 693 milljarðar.

Síðan spurði ég að því af hverju það hefði ekki verið í fjárlögum eða fjáraukalögum. Svarið við því er eiginlega út í hött. Ég óska eftir því að forseti kanni þessar fyrirspurnir (Forseti hringir.) og svör, þau eru skrifleg, og athugi hvort ekki sé hægt að fá réttara svar.