139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmönnum sem sagt hafa að ráðherrar eigi að svara eins fljótt og þeim er auðið og greiðlega og eins skýrt og þeir geta.

Það liggur fyrir þinginu frumvarp sem mælt var fyrir í síðustu viku þar sem með einhverjum hætti á að hnýta það í lög. Mér finnst hins vegar að hv. þingmenn verði að hafa hóf á því hvernig þeir setja fram spurningar sínar. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom hér upp og vísaði til fyrirspurnar sem hann lagði fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um daginn og hann hefur ekki fengið svör við henni. Hvernig var sú fyrirspurn? Hún var svona eins og hann rakti hana: Hvenær hyggst hæstv. ráðherra láta af lögbrotum sínum? Er ætlast til þess í fullri alvöru að ráðherrar svari spurningu af þessu tagi? Telja menn virkilega að ráðherrar taki vísvitandi ákvarðanir sem brjóta lög? Að sjálfsögðu ekki.

Ég var hér sjálfur þegar utandagskrárumræðan við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór fram og hvað sem menn segja um ákvörðun hans rakti hann nákvæmlega við hvaða lagaákvæði sú ákvörðun studdist.