139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. sjávarútvegsráðherra gefur út þá yfirlýsingu að hann muni svara innan skamms. Það er reyndar erfitt að geta í hvað það þýðir á hans bæ, hvað margir dagar eða vikur muni líða þar til hann virðir okkur þingmenn svars í þessum málum. Hann hefur ekki gert það í allri þeirri umræðu sem hann vitnaði sjálfur til í þessu máli.

Málið er sýnu alvarlegra fyrir þær sakir að hér er verið að ræða um mögulegt lögbrot. Hér er rökstutt lögfræðiálit sem segir að umræddur ráðherra brjóti með þessu lög og þegar hæstv. utanríkisráðherra kemur upp og spyr að því hvort einhverjum detti það í hug að ráðherrar brjóti lög í þessari ríkisstjórn má benda á að hæstv. umhverfisráðherra (Gripið fram í.) hefur verið dæmd. (Utanrrh.: … Víst.) Hún bregst við því með því að vísa því til Hæstaréttar og hún situr enn. Það eru svona mál sem ríkisstjórnin í öllu sínu lýðræðishjali sýnir í vinnubrögðum sínum, virðulegi forseti. Það er ekkert annað en vanvirðing gagnvart þinginu.