139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að hann hyggist svara þeim fyrirspurnum sem fyrir hann eru lagðar. En ég vil þó ítreka vegna ræðu hæstv. utanríkisráðherra að það er ekki síður mikilvægt og jafnvel mun mikilvægara að hæstv. ráðherrar bregðist við ef grunur leikur á að um lögbrot sé að ræða, að þeir snúi þá af villu síns vegar, leiðrétti mál sín og fari að vinna að málunum þannig að ekki leiki vafi á lögmæti.

Hæstv. ráðherrar. Ekki aðeins hefur legið fyrir lögfræðiálit á lögmannsstofu úti í bæ heldur hefur einnig legið fyrir álit innan ráðuneytisins sem bendir til þess að bregðast hefði átt við með öðrum hætti. Þess vegna liggur verulega á að ráðherrann bregðist við, svari (Forseti hringir.) og rökstyðji mál sitt betur en hann hefur gert hingað til.