139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að greina okkur frá því að hann ætli að reyna að drífa sig í að svara núna innan skamms. Þetta var okkur reyndar líka sagt í byrjun september og nú er farið að líða nokkuð á nóvember. En við skulum láta gott heita í þessum efnum og bíða svarsins.

Aðeins út af þessum 700 millj. kr. sem ákvörðun hæstv. ráðherra kostaði Byggðastofnun. Það er náttúrlega mjög alvarlegt mál og ekki hægt að vísa því frá sér af einhverri léttúð. Ég heyrði að hæstv. fjármálaráðherra var spurður um þetta í útvarpinu um daginn og þá sagði hann eitthvað á þessa leið: Ja, það verður eitthvað að láta undan sjálfu hruninu.

Ýmislegt hefur verið sagt um hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en þetta er í fyrsta skipti sem mér er kunnugt um að hann sé talinn vera persónugervingur hrunsins.