139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[15:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa utandagskrárumræðu við hæstv. fjármálaráðherra. Um þetta efni hefur verið rætt áður í þingsal þar sem ég var með svipaðar hugleiðingar og hv. fyrirspyrjandi er með nú til fjármálaráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki vilja kynna sér þau mál sem að þessu liggja því að það má segja að svör hans hér í dag séu nánast samhljóða því sem hann svaraði á fyrra þingi.

Þar sem hæstv. fjármálaráðherra segir að þetta samkomulag á milli þessara aðila, Landsbankans annars vegar og Vestia hins vegar, sé nokkurs konar samvinna um óskráð hlutabréf þar sem aðilar hafa gengið til samstarfs um að koma þeim fyrirtækjum sem um ræðir á fætur vil ég benda á að þetta minnir óneitanlega á þau vinnubrögð sem leiddu hér til hruns heillar þjóðar. Hvers vegna í ósköpunum er þetta með þessum hætti, að Landsbankinn sem er að meiri hluta í eigu ríkisins skuli taka þá áhættufjárfestingu sem þarna liggur að baki? Skuldir fyrirtækjanna sem Framtakssjóðurinn yfirtók í Vestia eru um 60 milljarðar kr. Framtakssjóðurinn keypti á tæpa 20 milljarða kr. þannig að þarna eru lífeyrissjóðirnir, sem á góðum stundum eru kallaðir lífeyrissjóðir landsmanna og eru lífeyrissjóðir landsmanna, að taka geipilega mikla áhættu.

Hér skal einnig minnt á að öll þessi fyrirtæki eru á samkeppnismarkaði og því í bullandi samkeppni við þá sem greiða í lífeyrissjóðina og þeir samkeppnisaðilar að þessum fyrirtækjum eru raunverulega að reka fyrirtækin fyrir lífeyrissjóði þeirra starfsmanna sem vinna hjá samkeppnisaðilunum.

Frú forseti. Ég ætlaði að koma inn á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er vitað (Forseti hringir.) að hann kemur inn á þetta samkomulag því að (Forseti hringir.) Vestia mátti ekki eiga þessi fyrirtæki um óákveðinn tíma. Sú umræða verður að bíða betri tíma.