139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[16:08]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Margar spurningar vakna þegar skoðuð eru kaup Framtakssjóðs á eignarhaldsfélaginu Vestia, spurningar sem bæði taka á framkvæmd sölunnar og stefnunni varðandi endurreisn raunhagkerfisins. Ég velti m.a. fyrir mér hvort rétt sé að nota fé lífeyrissjóðanna í skammtímafjárfestingar í fyrirtækjum í erfiðum samkeppnisrekstri.

Markmið Framtakssjóðs er að fjárfesta í fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum sem eiga sér svokallaðan vænlegan rekstrargrundvöll og er lágmarksfjárfesting 200 millj. kr. Ljóst er að sum fyrirtækin í Vestia eiga sér aðeins vænlegan rekstrargrundvöll ef önnur samkeppnisfyrirtæki verða keyrð í þrot. Með fjárfestingu sinni í Vestia, þar sem er að finna mörg stærstu félög landsins, skekkir Framtakssjóður samkeppnisstöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem ekki geta sótt sér aukið eigið fé í almannasjóði. Salan á Vestia sýnir hversu brýnt er að fjárfestingarsjóður verði stofnaður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru fyrst og fremst í atvinnuskapandi rekstri. Önnur fyrirtæki í Vestia má skilgreina sem þjóðhagslega mikilvæg, en áhættusama fjárfestingu fyrir lífeyrissjóði.

Í fyrra samþykkti Alþingi lög um stofnun opinbers eignaumsýslufélags að sænskri fyrirmynd til að taka við þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum í erfiðum rekstri. Ég velti fyrir mér, frú forseti, hvers vegna sum félögin í Vestia fóru ekki inn í slíkt eignaumsýslufélag. Er ríkið nú þegar orðið of skuldsett til að taka við þeim og því nauðsynlegt að nýta lífeyrissjóðina með þessum hætti? Er það nýting á fjármagni lífeyrissjóðanna sem mun draga úr möguleikum þeirra til að taka á sig helminginn af verðbólguskotinu (Forseti hringir.) sem varð hér eftir bankahrunið?