139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Bankasýslan og Vestia-málið.

[16:12]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér Bankasýslu ríkisins og þá sérstaklega aðkomu hennar að sölu Landsbanka Íslands á eignarhaldsfélaginu Vestia til Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna. Ég vil taka það fram strax að ég tel að í þessu tiltekna máli hafi allir þeir aðilar sem að málinu komu brugðist að einhverju leyti, Bankasýslan, Landsbankinn og forsvarsmenn Framtakssjóðsins. Ég mun rökstyðja það hér á eftir.

Fyrst vil ég þó árétta að ég tel að hugmyndin um Bankasýslu ríkisins sé í grunninn góð, að það séu ekki stjórnmálamenn sem fari með daglega umsýslu þeirra eignarhluta sem ríkið á í bönkunum heldur sé það falið sérstakri stofnun undir faglegri yfirstjórn sem sé ekki háð pólitískum afskiptum á hverjum tíma.

Lögin um Bankasýsluna eru skýr. Hlutverk hennar er að stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á fjármálamarkaði og tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi. Þetta segir í markmiðsgrein stofnunarinnar þar sem einnig er fjallað um það að Bankasýslan skuli fylgja eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma. Málsatvikin eru sömuleiðis skýr, stjórnendur Landsbankans vildu koma Vestia af sínum bókum, þeir höfðu frumkvæði að því að hafa samband við forsvarsmenn Framtakssjóðs lífeyrissjóðanna og með þeim tókst samkomulag um kaup Framtakssjóðsins á þeim sjö samkeppnisfyrirtækjum sem heyrðu undir Vestia. Ekkert útboð, engum öðrum gefinn kostur á að kaupa, söluferlið harðlæst og ógegnsætt að stærstum hluta.

Þessi vinnubrögð stangast á við eigendastefnu ríkisins sem Bankasýslan á að fylgja. Þau eru ekki í góðu samræmi við markmiðsákvæði laganna og þau eru klárlega brot á sameiginlegum verklagsreglum bankanna um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja þar sem segir í gr. 8.3, með leyfi forseta:

„Stefnt skal að opnu og gagnsæju söluferli og jafnræðis meðal fjárfesta.“

Þetta er ámælisvert fyrir stjórnendur Landsbankans, Framtakssjóðsins og Bankasýslunnar því að þessir aðilar eiga allir að líta á það sem meginmarkmið sitt við endurreisn íslensks atvinnulífs að standa þannig að málum að byggð sé upp að nýju tiltrú almennings á fjármálamarkaðnum sem varð svo illa úti í bankahruninu.