139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

bygging nýs fangelsis.

[16:21]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þessar upplýsingar og mér finnst drengilegt af honum að hafa komið strax til þess að leiðrétta það sem hann fór rangt með í morgun. Ég vil taka það fram hér úr þessum stól.

Ég vil jafnframt ítreka af þessu tilefni að meginástæðan fyrir því að ég lagði þessa spurningu fram er staðan sem uppi er hjá íslenskum arkitektum þar sem 60% þeirra eru án atvinnu. Það er brýnt að þau verk sem fram undan eru á þessu sviði rati til íslenskra arkitekta. Ég heyri að hæstv. dómsmálaráðherra er mér sammála hvað þetta varðar og ég vona svo sannarlega að til þeirra rati verkefni nú í framtíðinni.