139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

26. mál
[16:31]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr hvernig staðið hafi verið að samþykkt íslenskra stjórnvalda á þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Því er til að svara að endurskoðanir efnahagsáætlunar þeirrar sem hér er til umræðu byggja á þeim grunni sem lagður var í nóvember árið 2008 þegar samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hófst. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur yfirumsjón með starfinu við sjóðinn og vinnur jafnframt náið með öðrum viðkomandi ráðuneytum. Í aðdraganda endurskoðunar funda embættismenn efnahags- og viðskiptaráðuneytisins með tengiliðum úr þeim ráðuneytum sem koma að endurskoðun efnahagsáætlunarinnar. Ráðherrar eru upplýstir af embættismönnum um þróun þeirra þátta efnahagsáætlunarinnar sem snúa að viðkomandi ráðuneytum. Ráðherranefnd um efnahagsmál er sérstaklega gert grein fyrir helstu þáttum efnahagsáætlunarinnar á vikulegum fundum nefndarinnar og oftar ef þörf þykir. Þar eru lagðar sameiginlegar áherslur fyrir samþykkt áætlunarinnar í samstarfi við Seðlabanka Íslands.

Fjármálaráðuneytið og önnur ráðuneyti eftir atvikum taka virkan þátt í mótun efnahagsáætlunarinnar. Áður en efnahagsáætlunin er undirrituð er hún kynnt sérstaklega fyrir þeim ráðuneytum sem eiga beina aðkomu að málefnasviðum hennar. Að því loknu er hún kynnt ríkisstjórn í heild. Eftir umræður í ríkisstjórn er efnahagsáætlun undirrituð af forsætisráðherra, fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra auk seðlabankastjóra.

Spurt er: Var málið borið upp og rætt í ríkisstjórn og standa allir ráðherrar að samþykktinni?

Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs byggir á því að unnið sé á grundvelli efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þriðja endurskoðun efnahagsáætlunar var borin upp og rædd í ríkisstjórn 3. ágúst síðastliðinn og ríkisstjórnin stendur að baki efnahagsáætluninni.

Í þriðja lagi var spurt: Var málið borið upp og rætt í þingflokkum stjórnarflokkanna og var gengið úr skugga um að áætlunin nyti stuðnings þingflokka stjórnarflokkanna, þar með meiri hluta Alþingis?

Því er til að svara að efnahagsáætlun sú sem nú hefur verið tekin til þriðju endurskoðunar á rætur sínar að rekja til samþykktar fyrrverandi ríkisstjórnar í október árið 2008 um að hefja samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Um er að ræða framkvæmd á sviði efnahagsmála sem ríkisstjórn fer með hverju sinni, en áætlunin sem slík er ekki formlega borin upp til samþykktar í þingflokkum stjórnarflokkanna. Málið var hins vegar kynnt í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hafa ýmsir þættir áætlunarinnar og áherslur sem hún er grundvölluð á verið rædd í þingflokki Samfylkingarinnar. Þar hefur ekki komið fram andstaða við efnahagsáætlunina. Það á t.d. við um hlutfall niðurskurðar og skatttekna.

Þá eru ýmis þingmál tengd efnahagsáætluninni og einstökum skrefum hennar svo sem fjárlög, fjáraukalög og ýmis löggjöf sem varðar skuldastöðu heimilanna. Flestir þættir efnahagsáætlunar eru því ræddir meðal þingflokka stjórnarflokkanna með margvíslegu samhengi og hafa því m.a. komið til umfjöllunar í þingflokki.