139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

26. mál
[16:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr hvort framlengingin á samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafi verið borin undir stjórnarflokkana. Ég get svarað því til að svo var ekki hvað varðar þingflokk VG. Hvorki þessi sex mánaða framlenging né viðbótar þriggja mánaða framlenging komu til umræðu í þingflokknum. Við erum nokkur í þingflokki VG sem höfum mótmælt þeirri málsmeðferð.

Ég vil jafnframt geta þess að ég er þeirrar skoðunar að ljúka eigi samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn 30. nóvember eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Ástæðan er sú að gjaldeyrisvarasjóðurinn er nú kominn í þá stærð sem samkomulagið gerði ráð fyrir að hann yrði að ná, (Forseti hringir.) það hefur hann gert þrátt fyrir að við höfum aðeins fengið helminginn af lánsupphæðinni sem um var samið.