139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

26. mál
[16:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég held að ljóst sé af svörum hæstv. forsætisráðherra að málið er algjörlega á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar og þar með stjórnarflokkanna og hv. þingmanna þeirra. Það þýðir ekkert að reyna að skjóta sér undan málinu með því að segja að einhverjir þingmenn hafi mótmælt málsmeðferðinni. Spurningin er þessi: Hefur ríkisstjórnin ekki litið þannig á að hún hafi fullt umboð þingmanna sinna til þess að ganga frá þessari endurskoðun?

Eins og ég rakti áðan er hér um að ræða sjálft grundvallarplaggið í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, það er bara þannig. Auk þess felast líka margs konar skuldbindingar í endurskoðuninni og áætluninni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eins og ég rakti áðan varðandi frystingu á lánum heimilanna og afstöðu til almennrar skuldaniðurfellingar. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að búið sé að ýta út af borðinu öllum hugmyndum um almenna skuldaniðurfellingu, það er hluti af þriðju endurskoðun á efnahagssamvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þrátt fyrir það hafa menn karpað um þetta mál og rætt það eins og það sé enn þá á dagskrá þótt það hafi verið ljóst frá 13. september að málið er ekki lengur á dagskrá.

Hæstv. forsætisráðherra sagði frá því, sem eru tíðindi í sjálfu sér, að málið hafi verið borið upp í ríkisstjórn og ríkisstjórnin standi að endurskoðuninni. Það liggur þá alla vega fyrir að misvísandi yfirlýsingar hæstv. ráðherra m.a. í þá veru að þeir hafi efasemdir um samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eru algjörlega marklausar. Hæstv. ráðherrar hafa með þátttöku sinni í niðurstöðu ríkisstjórnarinnar tekist á hendur ákveðnar skuldbindingar sem þeir verða að standa og falla með. Það þýðir ekkert að reyna að koma sér undan því.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því sem fram kom í máli hv. þm. Lilju Mósesdóttur, (Forseti hringir.) hvort stjórnarflokkarnir hafi rætt það sín á milli að ljúka samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn 30. nóvember. Það væri fróðlegt að vita hvort komið hafi til álita að gera það.